Breska ríkisútvarpið hefur eftir Dr. Andrei Illarionov að Rússar hafi hingað til ekki tekið alvarlega hótanir annarra ríkja um að draga úr orkuneyslu sinni til þess að koma efnahagslegu höggi á Rússa. Til að mynda versli mörg Evrópuríki enn olíu og gas frá Rússlandi, þrátt fyrir að hafa flest fordæmt stríðsrekstur Rússa í nágrannalandi sínu.
„Ef vesturlönd myndu sýna viðleitni til þess að setja raunverulegt innflutningsbann á olíu og gas frá Rússlandi, myndi ég veðja á að eftir einn mánuð eða tvo, yrði stríðsrekstri Rússa í Úkraínu lokið,“ sagði Illarionov.
Hann bætti því við að slíkt bann væri eitt þeirra „afar áhrifaríkju tækja“ sem vesturlönd hefðu yfir að ráða gagnvart Rússum. Hann telji þá að Pútín sé tilbúinn að ganga ansi langt í að taka efnahagslegum afleiðingum refsiaðgerða gegn Rússum.
„Metnaður hans í landvinningum og uppbyggingu stórveldis er mun mikilvægari en nokkuð annað, þar á meðal lífsviðurværi rússnesku þjóðarinnar og efnahagshorfur landsins, jafnvel efnahagsleg staða hans eigin ríkisstjórnar,“ sagði Illarionov.
Það sé til marks um það að þær viðskiptaþvinganir sem nú hefur verið gripið til muni ekki duga til þess að fá Pútín til að láta af stríðsrekstrinum. Hins vegar myndi algjört bann við innflutningi á gasi og olíu frá Rússlandi líklega gera það, að mati Illarionovs.