Chauvin var í fyrrasumar dæmdur í 22 og hálfs árs fangelsi fyrir að verða George Floyd að bana með því að krjúpa á hálsi hans. Chauvin þrengdi að öndunarvegi Floyd í rúmlega níu mínútur og var hann látinn þegar bráðaliðar komu á staðinn.
CNN greinir frá því að Zoya Code og John Pope hafi bæði höfðað einkamál gegn Chauvin þar sem hann á að hafa kropið á hálsi þeirra í tveimur mismunandi atvikum árið 2017.
Code var handtekin á heimili sínu eftir að móðir hennar hringdi á lögregluna og sagði hana hafa ráðist á sig. Chauvin var einn lögreglumannanna sem mætti á vettvang og notaði að sögn Code óhóflega valdbeitingu við handtökuna. Hann handjárnaði hana inni í húsinu, leiddi hana út og ýtti henni niður í jörðina. Þar kraup hann á hálsi hennar og kallar Code það „einkennisbragð“ Chauvin.
Pope var aðeins 14 ára þegar hann lenti í Chauvin og vill hann meina að lögreglumaðurinn hafi kropið á hálsi sínum og baki í meira en fimmtán mínútur. Þá á hann einnig að hafa lamið Pope margoft í hausinn með vasaljósi.
Peter Ginder, lögmaður Minneapolis-borgar, sagði í yfirlýsingu í gær að borgin myndi reyna að semja við Zoya og Code.