Körfubolti

Ein af meistarahetjum Golden State Warriors samdi við Portland Trail Blazers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Payton II með Larry O'Brien bikarinn eftir að hafa orðið NBA-meistari með Golden State Warriors í síðasta mánuði.
Gary Payton II með Larry O'Brien bikarinn eftir að hafa orðið NBA-meistari með Golden State Warriors í síðasta mánuði. Getty/Adam Glanzman

Gary Payton ll verður ekki áfram hjá NBA meisturum Golden State Warriors því hann hefur samið við Portland Trail Blazers.

Payton gerði þriggja ára samning við Portland og fær fyrir þau 28 milljónir dollara eða 3,7 milljarða íslenska króna.

Payton annar er sonur NBA-goðsagnarinnar Gary Payton sem gekk á sínum tíma undir gælunafninu „Hanskinn“.

Payton vann sig inn í lið Golden State á síðasta tímabili eftir að hafa gengið frekar illa að finna sig í byrjun ferilsins.

Hann fékk mikilvægt varnarhlutverk hjá Golden State liðinu og var meðal annars sá sem stal flestum boltum í deildinni á hverjar 36 mínútur spilaðar.

Payton var með 7,1 stig, 3,5 fráköst og 1,4 stolna bolta í leik í deildarkeppninni.

Payton missti af mánuði af úrslitakeppninni eftir að hann braut bein í olnboga þegar hann lenti illa eftir ljótt brot en snéri til baka í lokaúrslitunum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×