Haaland samdi við City í sumar en félagið er fjármagnað af opinberum fjárfestingasjóði Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Enska félagið hefur verið gagnrýnt, meðal annars af mannréttingasamtökunum Amnesty International, fyrir að vera dæmi um íþróttaþvott (e. sports-washing).
Ríki frá Miðausturlöndum hafa í auknum mæli fjárfest ríkulega í fótboltafélögum undanfarin ár og eru sökuð um að gera það til að bæta ímynd ríkisins og þvo hana af meintum mannréttindabrotum. Önnur dæmi má nefna á Paris Saint-Germain, sem er í eigu Katara, og Newcastle United sem var keypt af fjárfestingasjóði Sádí Arabíu í fyrra.
Norðmenn hafa látið vel í sér heyra hvað þessi málefni varðar en fyrrum landsliðskonan Lisa Klaveness vakti athygli þegar hún gagnrýndi mannréttindastefnu yfirvalda í Katar á ársþingi FIFA í Doha í mars. Heimsmeistaramótið í fótbolta fer fram í Katar í nóvember.
Þá voru einnig tveir norskir blaðamenn handteknir við störf sín í Katar í haust.
Beskjed fra Bergen her altså. pic.twitter.com/mJdpO9EudC
— Jonas Grønner (@JonasGronner) July 31, 2022
Stuðningsmenn Brann nýttu þá tækifærið í heimsókn sinni til Bryne í gær til að benda á að hetjan Haaland þæði laun sín frá olíufurstum að þvottastörfum.
Jonas Grönner, fyrrum leikmaður Brann sem spilaði með KR hér á landi sumarið 2013, vakti athygli á málinu á Twitter en hann birti mynd af borða stuðningsmanna Brann. Á honum stóð:
„Hey bændur! Braut spilar fyrir skitna blóðpeninga. Það er aðeins einn Haaland.“ en þar er vísað til hins 17 ára gamla Markusar Haaland sem spilar með unglingaliðum Brann.