Eldflaugarnar höfnuðu á háspennulínu í kjarnorkuverinu fyrir helgi og urðu úkraínskir starfsmenn Zaporizhzhya að slökkva á kjarnakljúfi í kjölfarið. Úkraínumenn segja Rússa hafa skotið á verið en rússneska varnamálaráðuneytið vísar þeim ásökunum alfarið á bug. Rússar vilja meina að Úkraínumenn hafi sjálfir staðið fyrir árásunum og segja þá standa í kjarnorkuhernaði.
Rafael Mariano Grossi, forstjóri Alþjóðakjarnorkumálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, lýsti yfir miklum áhyggjum í yfirlýsingu í gær.
„Árásir á kjarnorkuver geta haft í för með sér gríðarmikla hættu og ég hef raunverulegar áhyggjur af stöðunni. Þetta getur farið mjög illa,“ sagði Grossi meðal annars í yfirlýsingunni.
Rússneskar hersveitir náðu yfirráðum yfir Zaporizhzhya hinn 4. mars þegar árás var gerð á borgina Energodar í suðausturhluta Úkraínu, þar sem kjarnorkuverið er staðsett. Guardian greinir frá.