Verksmiðjum í Sichuan-héraði var lokað í síðustu viku til að spara orku fyrir heimili landsins þar sem eftirspurn eftir loftkælingu hefur rokið upp vegna gífurlegs hita sem hefur náð allt að 45 gráðum. Í morgun greindi AP frá því að þessi orkuskömmtun til verksmiðja héraðsins muni vara fram á fimmtudag.
Tang Renjian, landbúnaðarráðherra Kína, sagði við Global Times að næstu tíu dagar væru lykiltímabil fyrir skaðaminnkun á hrísgrjónaökrum landsins. Þá sagði hann að yfirvöld myndu taka nauðsynleg skref til að tryggja haustuppskeruna sem er 75 prósent af heildaruppskeru landsins.
Á vefsíðu landbúnaðarráðuneytisins segir að yfirvöld muni „reyna að auka rigningu“ með því að sá efnum í ský og sprauta plöntur með „vatnsbindandi efnum“ til að takmarka uppgufun. Hins vegar hefur ekki komið fram hvar nákvæmlega þessar tilraunir munu fara fram.

Vatns- og rafmagnsskortur blasir við
Yfirvöld í Sichuan- og Hubei-héröðum segja að þúsundir hektara akra hafi eyðilagst algjörlega og milljónir hektara orðið fyrir skemmdum. Þá lýstu yfirvöld í Hubei yfir neyðarástandi á laugardag og greindu frá því að þau hygðust koma íbúum til aðstoðar vegna þurrkanna.
Yfirvöld í Sichuan hafa á sama tíma greint frá því að skortur á drykkjarhæfu vatni blasi við fyrir um 819 þúsund íbúa. Héraðið hefur fundið einna mest fyrir þurrkunum af því það fær 80 prósent orku sinnar frá vatnsaflsvirkjunum og uppistöðulón eru helmingi vatnsminni en venjulega.
Yfirvöld í héraðinu hafa einnig hvatt framleiðendur og fyrirtæki til að „skilja eftir orku fyrir fólkið“. Skrifstofum og verslanamiðstöðvum var skipað að slökkva á ljósum og loftkælingu og í neðanjarðarlestarkerfi Chengdu, höfuðborg héraðsins, var slökkt á þúsundum ljósa á lestarstöðvum.
