HM karla í fótbolta fer fram í Katar í nóvember og desember. Vegna mannréttindabrota í landinu, og vegna þess að þúsundir manna hafa látið lífið í verkavinnu við undirbúning mótsins, segir í tilkynningu Hummel að ákveðið hafi verið að HM-treyja Dana yrði með mjög óljósum merkjum framleiðandans og danska knattspyrnusambandsins.
Treyjuna má sjá hér að neðan en hún er rauð að lit og erfitt er að greina örvalínurnar sem eru einkennistákn Hummel.
„Við viljum ekki vera sýnileg á móti sem kostað hefur þúsundir manna lífið. Við styðjum danska landsliðið alla leið en það er ekki það sama og að styðja Katar sem gestgjafaþjóð,“ segir í yfirlýsingu Hummel.
„Við teljum að íþróttir eigi að sameina fólk. Þegar svo er ekki þá viljum við senda skýr skilaboð,“ segir í yfirlýsingunni. Þar kemur einnig fram að hönnun búningsins sé auk þess tilvísun í besta árangur í sögu danska landsliðsins, þegar það varð Evrópumeistari árið 1992.