Mótmælin, sem beinast gegn klerkastjórn Írans, hófust um miðjan september eftir að ung kona að nafni Mahsa Amini lést í haldi lögreglunnar þar í landi og beindust í fyrstu að siðferðislögreglu ríkisins. Eins og fram kemur í frétt AP fréttaveitunnar hafa þú undið upp á sig og eru einhver stærsta ógn sem klerkastjórn Írans stendur frammi fyrir frá byltingunni sem kom henni til valda árið 1979.
Klerkastjórnin hefur sakað erlendar ríkisstjórnir um ýta undir óöldina í Íran en hafa hingað til ekki getað fært sannanir fyrir því.
Sjá einnig: Segir Vesturlönd hrokafull og misnota mannréttindaráð SÞ
Fréttaveitan hefur eftir forsvarsmönnum mannréttindasamtaka að minnst tólf aðilar hafi hingað til verið dæmdir til dauða fyrir þátttöku í mótmælunum.
Réttarhöldin gegn mótmælendum hafa verið harðlega gagnrýnd á heimsvísu en þau fara fram fyrir luktum dyrum. Sakborningarnir fá ekki að velja sér lögmenn og þeir fá ekki einu sinni að sjá sönnunargögnin gegn sér. Shekari var ákærður fyrir að loka umferð um götu og ráðast á meðlim öryggissveita Írans með sveðju.
Hann var handtekinn þann 25. september og dæmdur til dauða þann 20. nóvember eftir að hafa verið ákærður fyrir að „heyja stríð gegn guði,“ samkvæmt AP fréttaveitunni.
Sjá einnig: Fyrsti mótmælandinn dæmdur til dauða í Íran
Í frétt Guardian segir að meðlimir öryggissveita í Íran hafi verið að skjóta á mótmælendur með haglabyssum. Reglulega sjáist konur með öðruvísi sár en menn eftir mótmæli í Íran.
Sjúkraliðar hafi sagt í viðtölum að mikið af konum hafi særst á andliti, brjóstum og kynfærum á undanförnum dögum. Menn fá oftar sár á fótum og á baki.