Þúsundir hafa tekið þátt í mótmælum í Íran sem hófust eftir að 22 ára kona lést í haldi siðgæðislögreglunnar þar í landi. Konan hét Mahsa Jina Amini og var sökuð um að bera höfuðklút sinn ekki á viðeigandi máta og var handtekin í kjölfarið. Mótmæli vegna andláts hennar hafa staðið yfir síðan um miðjan september.
Tveir hafa nú þegar verið teknir af lífi fyrir að taka þátt í mótmælunum og fleiri eiga yfir höfði sér dauðadóm. Greint hefur verið frá því að stjórnvöld séu að nota dauðadóma til þess að reyna að fá mótmælendur til þess að hörfa.
Mótmælandinn sem fær mál sitt nú tekið upp á ný er 25 ára karlmaður. Hann var dæmdur til dauða fyrir að „höfða stríð gegn Guði“ (e. wage war against God) með því að gera tilraun til þess að brjóta vegrið og kveikja í ruslatunnu á meðan á mótmælum stóð. Mótmælandinn hefur nú verið í hungurverkfalli í tvær vikur. Guardian greinir frá þessu.
Maðurinn er segist hafa verið þvingaður til þess að játa sök þegar hann var dæmdur.
Tveir mótmælendur hafa þegar verið teknir af lífi og voru þeir báðir 23 ára. Mannréttindasamtökin Amnesty International halda því fram að að minnsta kosti 26 aðrir eigi dauðadóm yfir höfði sér vegna þátttöku í mótmælunum. Talið er að um 19 þúsund manns hafi verið handteknir vegna mótmælana frá upphafi.