„Opinberar persónur sem halda áfram að vinna gegn lýðræðinu munu þurfa að svara fyrir það,“ sagði dómarinn Alexandra de Moraes, sem staðfesti beiðni saksóknara um að hefja rannsókn á þætti forsetans fyrrverandi. Í tilkynningu saksóknaraembættis segir að rannsóknin muni snúa að hvatningu forsetans og stuðningi við innbrot fjölda stuðningsamnna sinna í opinberar byggingar 8. janúar. Þá vísar saksóknar í myndband þar sem Bolsonaro dregur niðurstöður kosninga, þar sem hann beið lægri hlut gegn sitjandi forseta Lula da Silva, í efa.
Ríkissaksóknari telur að myndbandið, sem nú hefur verið eytt, réttlæti rannsókn á aðgerðum Bolsonaro fyrir og eftir 8. janúar síðastliðinn. Hann er nú staddur í Bandaríkjunum.
Dómsmálayfirvöld í Brasilíu hafa einnig gefið út handtökutilskipanir á hendur hátt settum embættismönnum í landinu vegna árásanna, þar á meðal Anderson Torres, sem gegndi embætti dómsmálaráðherra í forsetatíð Bolsonaros. Hann er grunaður um að hafa unnið með mótmælendum.
Forseti Brasilíu, Lula da Silva, hefur fordæmt múginn sem réðst inn í byggingarnar og heitir því að þeir sem eiga hlut að máli, sem hann kallar „skemmdarvarga og fasista,“ verði dregnir til ábyrgðar.