Um 150 manns voru í moskunni og þar á meðal margir lögregluþjónar, þar sem bænahúsið er nærri lögreglustöð. Tölur um látna og særða eru enn á miklu reiki.
Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni en samkvæmt AP fréttaveitunni hafa Talibanar verið sakaðir um árásir sem þessar á liðnum árum.
Hér að neðan má sjá myndband frá Peshawar í morgun. Borgin er í norðurhluta Pakistans, nærri landamærum Afganistans.
— Roshan Din Diameri (@Rohshan_Din) January 30, 2023
#peshawarunderattack #KPKUpdates pic.twitter.com/4rqHU6CdTJ
Fréttaveitan hefur eftir lögreglustjóranum á svæðinu að sprengingin hafi verið svo öflug að þak moskunnar hafi hrunið. Margir hafi særst við það. Einn lögregluþjónn sem var í moskunni en slapp óskaddaður út segist hafa heyrt marga kalla eftir aðstoð úr rústunum.
Margir hinna særðu eru sagðir í alvarlegu ástandi og þykir líklegt að tala látinna muni hækka þegar líður á daginn.
Shahbaz Sharif, forsætisráðherra Pakistans, hefur heitið því að þeir sem beri ábyrgð á árásinni verði dregnir til ábyrgðar.