Spurt var hvort grundvallarmunur væri á þeirri viðleitni íslenskra yfirvalda að koma í veg fyrir fólksflutninga til Vesturheims á 19. öld og þeirri viðleitni stjórnvalda nú, að varna almennum borgurum vegar út fyrir landsteinana í saklaust frí.

Jakob segir að vísu bagalegt að stjórnvöld séu búin missa slíka stjórn á efnahagsmálunum að þau þurfi að beina þessum tilmælum til Íslendinga, en að engu að síður séu tilmælin sem slík göfug.
„Við eigum að hafa það mjög skýrt. Það er göfugt að fara ekki til útlanda. Fólk er að fara með börn til útlanda. Ég meina í alvöru. Heyrirðu hvað þetta er ruglað? Hvað ertu að gera með börn í útlöndum? Þau hafa ekkert að gera í útlöndum. Það er vesen að fara með þau. Það er dýrt. Það er ekkert skemmtilegt við það - og börnin hafa raunar ekkert gaman af því sjálf,“ segir Jakob.
Jakob tók dæmi af Þórólfi Gíslasyni kaupfélagsstjóra í Skagafirði og lofaði hans nálgun í málefnum utanlandsferða. Í viðtali árið 2019 greindi Þórólfur frá þeirri mögnuðu staðreynd, að hann hafði þá ekki farið til útlanda í fimmtán ár; frá 2004. Ekki stafar kyrrsetan af fjárskorti enda kaupfélagsstjórinn að vænta má sterkefnaður maður.
„Ég held að við ættum að taka hann okkur til fyrirmyndar í þessum efnum,“ segir Jakob.
Hér er tilvitnun í Þórólf úr Morgunblaðsviðtalinu: „Það á að hvetja til sparnaðar hér, og gott ef þú getur verið búinn að eignast þitt húsnæði um miðjan aldur, til að geta átt það sem varasjóð. Áður var það þannig að fólk útskrifaðist úr skóla og fór beint að vinna, en nú fara allir í sex mánaða heimsreisu. Þetta er ákveðinn flótti frá því að taka þátt í samfélaginu.“
