Forsætisráðherrann tók þessa ákvörðun í kjölfar gríðarlegra mótmæla vegna breytinganna, sem miðuðu að því að færa stjórnvöldum og þinginu aukið vald yfir dómstólum.
Netanyahu sagðist í ávarpi í gær ekki vera reiðubúinn til að sundra þjóðinni þegar það væri möguleiki á því að ná sátt með viðræðum. Hann, sem forsætisráðherra, myndi taka sér tíma í slíkar viðræður.
Þrýstingurinn á ráðherrann jókst í gær, eftir að tugþúsundir flykktust út á götur fjölda borga eftir að greint var frá því að Netanyahu hefði látið varnarmálaráðherrann fjúka vegna andstöðu hans við breytingarnar.
Þá biðlaði valdalaus forseti landsins til ráðamanna í gær um að staldra við; augu Ísrael og heimsbyggðarinnar allrar væru á þeim.
Netanyahu hefur sætt rannsóknum vegna spillingar og neyddist til að gera ýmsar málamiðlanir til að ná aftur völdum. Til að friðþægja samstarfsflokka sína í gær er hann sagður hafa samþykkt myndun þjóðvarðarliðs, undir stjórn stjórnmálamannsins Itamar Ben-Gvir.
Nýtt þing verður sett eftir nokkrar vikur.