Erlent

Mótmælendur kveiktu í uppáhalds veitingastað Macron

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Staðurinn sést hér vinstra megin á myndinni. Eldur kviknaði í stutta stund í sóltjaldi staðarins.
Staðurinn sést hér vinstra megin á myndinni. Eldur kviknaði í stutta stund í sóltjaldi staðarins. Getty

Hundruð þúsunda hafa mótmælt fyrirætlunum franskra stjórnvalda um að hækka eftirlaunaaldur úr 62 árum í 64 ár þar í landi. Í dag kveiktu mótmælendur í París í sóltjaldi veitingastaðar sem frægur er fyrir að hýsa teiti forsetans í landinu, Emmanuels Macrons. 

Síðustu vikur hefur umræddum breytingum verið mótmælt af mikilli hörku í borgum Frakklands, meðal annars París, Lyon og Nantes. Lögregluyfirvöld lýsa því að fjöldi mótmælenda hafi stundað það að kveikja í ruslafötum og kastað hlutum í átt að lögreglumönnum. Í dag var eins og áður segir kveikt í sóltjaldi veitingastaðarins La Rotonde, sem hýsti teiti Macrons þegar hann stóð uppi sem sigurvegari í fyrri kosningaumferð forsetakosninganna árið 2017.

Í Lyon notaði lögreglan ítrekað táragas á mótmælendur sem höfðu brotið rúður verslana og ætt þar inn. Það sama átti sér stað í Rennes, borg í norðvesturhluta landsins.

Til stendur að hækka eftirlaunaaldur í Frakklandi úr 62 árum í 64. Mótmælin hafa nú staðið yfir í tvo og hálfan mánuð. 


Tengdar fréttir

Báru eld að ráðhúsinu í Bordeaux

Mótmælendur í borginni Bordeaux í Frakklandi kveiktu í ráðhúsi borgarinnar í gærkvöldi en talið er að fleiri en ein milljón manna hafi mótmælt á götum úti í landinu í gær.

Ríkis­stjórn Frakk­lands heldur velli

Vantrauststillaga á hendur ríkisstjórn Frakklands var felld með minnsta mun í dag. Ríkisstjórnin heldur því velli á meðan Frakkar mótmæla á götum úti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×