Hópurinn, sem kallast House Freedom Caucus, inniheldur umdeilda og mjög svo hægri sinnaða þingmenn eins og Marjorie Taylor Greene og Matt Gaetz. Þingmennirnir eru reiðir út í McCarthy fyrir að hafa gert samkomulag við Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, um að hækka skuldaþakið svokallaða.
Frumvarp þar að lútandi var samþykkt af þingmönnum beggja flokka í fulltrúadeildinni og í kjölfarið í öldungadeildinni. Joe Biden, forseti, skrifaði undir frumvarpið um síðustu helgi, svo það varð að lögum.
Meðlimir Freedom Caucus hafa haldið þinginu í gíslingu undanfarna daga en leiðtogar Repúblikanaflokksins ákváðu í gærkvöldi að fresta öllum atkvæðagreiðslum í fulltrúadeildinni út vikuna, þar sem engin lausn var í sjónmáli.
McCarthy viðurkenndi í gær að atkvæðagreiðslan á þriðjudaginn hefði komið honum á óvart en þetta var fyrsta slíka atkvæðagreiðslan þar sem tillögur meirihlutans eru felldar frá því McCarthy tók við embætti.
Sjá einnig: McCarthy stendur frammi fyrir uppreisn
Meirihluti Repúblikanaflokksins í fulltrúadeildinni eru mjög naumur en þar sitja 222 Repúblikanar gegn 212 Demókrötum en eitt sæti er laust.
Þingmennirnir sem standa gegn McCarthy hafa ekki enn lýst yfir vantrausti á hann en einungis einn þingmaður þarf að lýsa yfir slíku svo halda þurfi atkvæðagreiðslu. Það er eftir að McCarthy varð við kröfum þessa sama hóps þegar hann var að reyna að tryggja sér embætti þingforseta.
McCarthy ræddi við blaðamenn eftir að sú ákvörðun var tekin í gær þar sem hann talaði um erfiðleika í viðræðum við umrædda þingmenn.
„Þetta er það erfiða,“ sagði hann samkvæmt Washington Post. „Sumir þessara þingmanna, þeir vita ekki hvað þeir vilja biðja um.“