Starfsemi íslenska sendiráðsins í Moskvu verður lögð niður frá og með 1. ágúst næstkomandi en þar hafa verið fimm staðráðnir starfsmenn og tveir íslenskir erindrekar. Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, mun fara til Kaupmannahafnar að sögn utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún segir að forsendurnar fyrir starfsemi í Moskvu séu gjörbreyttar og pólitísk tengsl Rússlands og Íslands séu nánast engin.
„Við slítum ekki stjórnmálasambandi og lokum ekki sendiráðinu en gerum þetta svona í ljósi stöðunnar eins og hún blasir við.“
Sjá einnig: Forsendur gjörbreyttar og tengslin nánast engin
Kuleba birti tíst í dag þar sem hann hvatti önnur ríki til að fara að fordæmi Íslendinga, því Rússar þyrftu að átta sig á því að grimmd þeirra leiddi til einangrunar.
I thank @ThordisKolbrun for Iceland s decision to suspend operations of its embassy in Moscow and request Russia to limit the operations of its embassy in Reykjavík. Russia must see that barbarism leads to complete isolation. I encourage other states to follow Iceland s example.
— Dmytro Kuleba (@DmytroKuleba) June 9, 2023
Í frétt Moscow Times segir að Íslendingar séu fyrstir Evrópuþjóða til að loka sendiráði í Rússlandi, frá því Rússar hófu innrásina í Úkraínu.
Á undanförnum árum hafa ríkisstjórnir víða um heim fækkað erindrekum sínum og starfsmönnum í Rússlandi og gert Rússum að gera hið sama. Þeirra á meðal eru Svíar, Norðmenn, Bandaríkjamenn og Bretar.
Þjóðverjar skipuðu Rússum svo nýverið að loka fjórum af fimm ræðismannsskrifstofum þeirra í Rússlandi en það var í kjölfar þess að Rússar settu takmark á fjölda starfsmanna sendiráðs og ræðismannsskrifstofa Þjóðverja í Rússlandi.