Ætlaði bara að vera liðlegur við farlama konu
Bæjarstjórinn í Puerto Seguro í nágrenni við Salamanca á mið-Spáni ætlaði bara að vera liðlegur við gamla konu sem ekki var fótafær þegar sveitastjórnarkosningarnar fóru fram í lok síðasta mánaðar. Enda þekkjast allir í þessu 60 manna þorpi. Hún hringdi og spurði hann hvort hann gæti ekki gert henni mögulegt að kjósa. Hann hélt það nú, vippaði kjörkassanum út í bíl, skottaðist heim til gömlu konunnar og sagði henni að vera snögg. Hún var svo snögg að honum gafst ekki einu sinni tími til að reykja hálfa sígarettu. Þá fór hann og skilaði kjörkassanum aftur. Þetta voru ekki nema einhverjar fimm mínútur, segir Evaristo Montero, bæjarstjóri.
Sósíalistar kærðu kosningarnar
Oddviti Sósíalistaflokksins var í göngutúr við kirkjuna þegar hann sá kjörkassann skjótast framhjá sér í aftursæti bæjarstjórans. Honum fannst eitthvað bogið við þetta og hringdi á lögregluna.
Kjörstjórn hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé svo alvarlegt brot á kosningalögum að kjósa verði aftur. Ekki hefur verið ákveðið hvenær það verður gert.
Bæjarstjórinn, sem hefur gegnt embættinu í 12 ár, segist vera miður sín og að auðvitað hefði hann ekki átt að gera þetta. Kjörstjórnin í Borgarnesi hefði nú líka getað sagt honum að svona gera menn ekki.
Breytir ekki miklu... en lög eru lög
Heldur ólíklegt verður að teljast að nýjar kosningar breyti miklu til eða frá, því Lýðflokkurinn burstaði kosningarnar um daginn, hlaut 32 atkvæði á móti 13 atkvæðum sósíalista. En það er alveg sama, lög eru lög… segja sumir.