Fótbolti

Löng leik­bönn eftir lætin í leik Banda­ríkjanna og Mexíkó

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Weston McKennie lætur finna fyrir sér.
Weston McKennie lætur finna fyrir sér. Candice Ward/Getty Images

Bandaríkin og Mexíkó áttust við í undanúrslitum Þjóðadeildar Norður- og Mið-Ameríku á dögunum. Þar fór allt í bál og brand undir lok leiks. Endaði dómarinn á að gefa fjögur rauð spjöld. Leikmennirnir sem hlutu spjöldin hafa nú allir fengið löng leikbönn.

Leikur Bandaríkjanna og Mexíkó fór fram 16. júní. Bandaríkin unnu öruggan 3-0 sigur og flugu áfram í úrslit Þjóðadeildar Norður- og Mið-Ameríku. Sigur Bandaríkjanna var hins vegar ekki það fréttnæmasta þar sem það sauð upp úr á meðan leik stóð og fjögur rauð spjöld fóru á loft.

Bandaríkin unnu á endanum Kanada í úrslitum nokkru dögum síðar en nú hefur Knattspyrnusamband álfunnar dæmt í málinu. Leikmennirnir fjórir fengu á bilinu tveggja til þriggja leikja bönn. ESPN greindi frá.

Hjá Bandaríkjunum fékk Weston McKennie þriggja leikja bann og Sergiño Dest fékk tvo leiki. Þeir munu taka bann sitt út í Gullbikarnum [e. Gold Cup] en Bandaríkin mæta Heimi Hallgrímssyni og lærisveinum hans hjá Jamaíka í fyrsta leik keppninnar í kvöld.

Segja má því að leikbönnin hafi ekki áhrif á þá McKennie og Dest þar sem hvorugur leikmaðurinn var að fara taka þátt í Gullbikarnum.

Leikbönn Mexíkó hafa meiri áhrif þar sem báðir leikmenn liðsins áttu einnig að taka þátt í Gullbikarnum. Cesar Montes var dæmdur í þriggja leikja bann og Gerardo Arteaga í tveggja leikja bann.

Knattspyrnusamband Norður- og Mið-Ameríku hefur gefið út að ef liðin haga sér ekki í framtíðinni gæti það refsað knattspyrnusamböndum landanna enn frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×