Aðgerðirnar beinast að borginni Jenín en herinn segir skomarkið stjórnstöð Jenín-sveitarinnar í flóttamannabúðum við borgina, sem samanstendur af liðsmönnum ýmissa bardagahópa úr röðum Palestínumanna.
Hundruð vopnaðra liðsmanna Hamas, Islamic Jihad og Fatah eru sagðir starfa frá búðunum.
Allir inngangar í flóttamannabúðirnar eru nú undir eftirliti hermanna Ísraelshers og þykkur svartur reykjarmökkur er sagður stíga frá dekkjabrennum íbúa og í hátalarakerfum moska í borginni hafa bardagamenn verið hvattir til að mæta aðgerðunum með hörku.
Guardian hefur eftir palestínska sjúkrabílstjóranum Khaled Alahmad að stríðsástand ríki í búðunum. „Það voru gerðar árásir úr lofti. Í hvert sinn förum við á fimm eða sjö sjúkrabílum inn og komum út með bílana fulla af særðum,“ segir hann.
Aðgerðunum hefur verið mótmælt víða á Vesturbakkanum, meðal annars við eftirlitsstöð nærri borginni Ramallah, þar sem palestínskur maður var skotinn í höfuðið.
Loftvarnakerfi Ísrael hafa verið sett á viðbúnaðarstig vegna mögulegra hefndaraðgerða en talsmaður hersins segir aðgerðirnar í Jenín afmarkaðar og munu taka einn til þrjá daga.
Fleiri en 180 Palestínumenn og 24 Ísraelar hafa látið lífið í átökum á Vesturbakkanum það sem af er ári en áhyggjur eru uppi um að spennan á svæðinu muni brjótast út í stríði.