Hann sagði rannsókn Öryggis- og varnarmálaráðs Úkraínu enn standa yfir en ljóst væri að spilling væri að leiða til þess að fleiri og fleiri kæmust undan herþjónustu á grundvelli falsaðra heilsufarsvottorða.
Ummælin lét Selenskí falla í daglegu ávarpi sínu í nótt.
Hann sagði rannsóknina þegar hafa leitt í ljós að spilling ætti sér stað í nokkrum héruðum og að ýmsir embættismenn væru viðriðnir málið. Múturnar næmu á bilinu 3.000 til 15.000 dölum, jafnvirði 400 þúsund til 2 milljóna íslenskra króna.
Forsetinn sagði að það væri síðan tilefni til annarar rannsóknar að kanna hversu margir hefðu flúið land eftir að hafa framvísað fölsuðum heilbrigðisvottorðum til að komast undan herþjónustu.
„Við erum að tala um þúsundir einstaklinga hið minnsta,“ sagði hann.
Fyrr í mánuðinum voru allir yfirmenn skráningastöðva hersins látnir fjúka. Þá sagði forsetinn að yfir hundrað sakamál væru í rannsókn vegna spillingar á skráningastöð í Odessa.