John, sem hefur búið og starfað í London í meira en tuttugu og fimm ár, mun verða einn eigenda BBA//Fjeldco. Hann hefur einkum sérhæft sig í ráðgjafaverkefnum á sviði einkafjármögnunar (e. private equity) og áhættufjármögnunar (e. venture capital) í tengslum við alþjóðleg fjárfestingarverkefni og endurskipulagningu fyrirtækja beggja vegna Atlantsála, að því er segir í tilkynningu frá BBA//Fjeldco.
John hefur um nokkurt skeið verið í hópi eigenda í einkafjármögnunarteymi Goodwin í London en var áður eigandi hjá alþjóðlegu stofunum Kirkland & Ellis og O‘Melveny & Myers, og ráðgefandi hjá Sidley & Austin. Þá var hann einnig forstöðumaður lögfræðisviðs og viðskiptaþróunar fyrirtækis á sviði endurnýjanlegrar orku í Kaliforníu í Bandaríkjunum árin 2012 til 2017.
Þá er John einn stofnenda góðgerðarstofnunarinnar Girls are Investors (GAIN) í Bretlandi en tilgangur þess er að auka þátttöku kvenna í stjórnun fjárfestinga.
„Það gleður mig að slást í hópinn með vinum mínum hjá BBA//Fjeldco og stuðla að frekari vexti starfseminnar í London. Ég hef lengi fylgst með íslensku viðskiptalífi og hef heillast af þeim krafti og hugviti sem þar býr. Lega landsins í norðri miðja vegu milli Ameríku og Evrópu gerir Ísland að ákjósanlegum upphafspunkti fyrir fjárfestingar á Norðurslóðum,“ segir John Van de North.
Gunnar Þór Þórarinsson, forstöðumaður BBA//Fjeldco í London, segir það vera gríðarlegan feng að fá John til liðs við félagið. „Hann kemur inn með sérþekkingu og reynslu sem er ekki að finna á öðrum íslenskum lögmannsstofum og mun þannig styrkja þjónustu BBA//Fjeldco við bæði íslenska og erlenda viðskiptavini.“
BBA//Fjeldco er ein stærsta lögmannsstofa landsins og hefur einkum sérhæft sig í ráðgjöf við kaup og sölu fyrirtækja, og hefur komið að flestum af stærstu samrunum félaga hér á landi síðustu ár. Ekki liggur fyrir ársreikningur síðasta árs en á árinu 2022 var heildarvelta stofunnar samtals yfir 1.400 milljónir og hagnaður eftir skatt um 368 milljónir.
Á stofunni starfa yfir 30 lögfræðingar, sérhæfðir í fyrirtækjalögfræði, með málflutningsréttindi á Íslandi, í Englandi, Frakklandi og New York.
Ásamt Gunnari Þór eru helstu eigendur BBA//Fjeldco þeir Halldór Karl Halldórsson, Bjarki Diego, Baldvin Björn Haraldsson, Kári Ólafsson, Þórir Júlíusson, Páll Jóhannesson og Einar Baldvin Árnason.