Eldur kviknaði á olíuhreinsistöð og rafmagn fór af á nokkrum stöðum við landamærin þegar Úkraínumenn sendu 35 dróna gegn skotmörkum í Rússlandi í gær, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu.
Engan sakaði í árásunum samkvæmt yfirvöldum í Rússlandi.
Sergei Sobyanin, borgarstjóri Moskvu, sagði einn dróna hafa verið skotinn niður nærri Domodedovo flugvellinum snemma í gærmorgun. Tveir voru skotnir niður í Kaluga, sunnan við höfuðborgina, og fjórir í Yaroslavl, norðaustur af Moskvu.
Þess má geta að Yaroslavl liggur í um 800 kílómetra fjarlægð frá landamærunum, sem sýnir hversu langt drónarnir geta farið.
Að sögn varnarmálaráðuneytisins voru fleiri drónar skotnir niður í Belgorod, Kursk og Rostov.
Þetta voru ekki einu aðgerðir Úkraínumanna um helgina en 16 ára stúlka er sögð hafa látist í árásum á Belgorod í gærmorgun. Seinna um daginn lést einn í annarri árás og ellefu særðust.
Rússnesk yfirvöld segjast hafa skotið niður tólf eldflaugar sem Úkraínumenn skutu í átt að landamærunum, auk Mi-8 þyrlu sem var á leið í átt að Belgorod. Hún er sögð hafa verið skotin niður yfir Sumy í Úkraínu.
Vólódímír Selenskí þakkaði hernum fyrir nýja og „langdræga“ sókn í daglegu ávarpi sínu. Þá hafði Reuters eftir heimildarmanni að Úkraínumenn hefðu gert tólf vel heppnaðar árásir á olíuhreinsistöðvar Rússa frá því að síðarnefndu gerðu innrás í landið.
Annar heimildarmaður sagði þær tölur aðeins ná yfir öryggisþjónstu landsinsen ekki hernaðaryfirvalda, sem hefðu einnig gert drónaárásir á olíuinnviði.