Einn lést í drónaárás Húta, jemenskra uppreisnarmanna á Tel Aviv í Ísrael í gær og markar þar með fyrsta mannfall sem orðið hefur í Hútaárás á ísraelskri grundu. Á sólarhring hefur Ísraelsher hins vegar drepið að minnsta kosti 37 Palestínumenn í loftárásum; þar af sjö í árás á Nuseirat-flóttamannabúðirnar í gær. Á meðal látinna var hin 25 ára Ola al-Kurd sem var komin níu mánuði á leið með sitt fyrsta barn.
„Hún var komin níu mánuði á leið þegar hún varð fyrir árásinni í dag. Hún hlaut píslarvættisdauða í árás hernámsliðsins og var þegar í stað flutt á Awda-sjúkrahúsið þar sem hún undirgekkst strax uppskruð,“ segir Dr. Khalil Dajran, talsmaður Aqsa-sjúkrahússins.
„Nýburinn er nú í hitakassa á fæðingardeildinni. Hann hóf líf sitt sem móðurlaust barn og munaðarleysingi.“
Vopnahlé gæti verið í sjónmáli
Ættingjar hinnar látnu móður syrgðu hana sáran áður en lík hennar var flutt til greftrunar. Al-Kurd missti foreldra sína og nokkur systkini í loftárás Ísraelsmanna fyrir fjórum mánuðum en komst þá sjálf lífs af. Eiginmaður hennar særðist í árásinni í gær og hlýtur aðhlynningu á sjúkrahúsinu, þar sem ónefndur sonur þeirra liggur einnig.Vopnahlé á Gasa gæti verið í sjónmáli, ef marka má orð Anthonys Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í gær. Hann sagði stríðandi fylkingar, auk fulltrúa samningsríkja, nálgast marklínuna í viðræðum sem standa nú yfir í Kaíró. Næðust samningar yrði um 120 ísraelskum gíslum sleppt úr haldi Hamas.