Aðfaranótt laugardags lentu sprengjur í þremur hverfum borgarinnar. Þá særðust fimmtán manns, þeirra á meðal tvö börn.
AP fréttaveitan hefur eftir embættismönnum að Rússar hafi notast við svifsprengjur til árásanna en það eru oft gamlar og stórar sprengjur frá tímum Sovétríkjanna sem búnar hafa verið vængjum og staðsetningarbúnaði.
Þeim er svo varpað frá orrustuþotum úr mikilli hæð og geta svifið langar vegalengdir áður en þær lenda á skotmörkum sínum, oft af mikilli nákvæmni. Rússar hafa á undanfarna mánuði notað þessar sprengjur víðsvegar í Úkraínu en þær valda gífurlegum skaða.
Fregnir hafa borist af því að Úkraínumenn eigi von á sambærilegum sprengjum frá Bandaríkjamönnum sem hægt er að varpa úr F-16 orrustuþotum.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í morgun að meðal hinna særðu eftir árás næturinnar væri átta ára barn og tveir táningar. Sextíu manns hefðu verið í húsinu.
Þá sagði forsetinn að þessa vikuna hefðu Rússar varpað rúmlega níu hundruð sprengjum á Úkraínu og notað þar auki um fjögur hundruð sjálfsprengidróna og tæplega þrjátíu eldflaugar af ýmsum gerðum.
Selenskí sagði þörf á því að styrkja loftvarnir Úkraínu og auka getu úkraínska hersins til að gera árásir í Rússlandi. Yfirvöld í Úkraínu hafa um nokkuð skeið beðið bakhjarla sína um leyfi til að nota vestræn vopn til árása í Rússlandi.
Last night, Russia struck Kharkiv again, this time with aerial bombs targeting an ordinary residential building. As a result, 21 people were injured, including an 8-year-old child and two 17-year-old teenagers. Sixty residents were evacuated from the building. All are receiving… pic.twitter.com/mbLypqbew9
— Volodymyr Zelenskyy / Володимир Зеленський (@ZelenskyyUa) September 22, 2024
Selenskí mun fara til Bandaríkjanna í næstu viku, þar sem hann mun enn og aftur kalla eftir leyfi til að nota vestræn vopn til árása í Rússlandi. Er það í kjölfar vel heppnaðra árása Úkraínumanna á tvær stórar vopnageymslur í Rússlandi.
Sjá einnig: Önnur vopnageymsla í ljósum logum í Rússlandi
Rustem Umyerov, varnarmálaráðherra Úkraínu, sagði í nýlegu viðtali að bakhjarlar Úkraínu hefðu veitt munnlegt samþykki varðandi áætlun um að fjármagna framleiðslu Úkraínumanna á eigin langdrægum eldflaugum og langdrægum drónum
Þessi vopn gætu Úkraínumenn notað sjálfir án takmarkana til árása í Rússlandi.