Trump hefur einnig líkt Selenskí við sölumann vegna ferða hans um heiminn og ákall eftir hernaðaraðstoð. Hefur Trump heitið því að binda enda á stríðið í Úkraínu á fyrsta degi í starfi, eða jafnvel fyrr. Hann hefur þó ekki útskýrt hvernig.
Árið 2019 bað Trump Selenskí um „greiða“ sem snerist að hefja opinbera rannsókn á Joe Biden og syni hans Hunter Biden en þá var Joe Biden í framboði gegn Trump. Á þeim tíma hélt Trump aftur að hernaðaraðstoð til Úkraínu en fulltrúadeild Bandaríkjaþings ákærði Trump fyrir embættisbrot vegna símtals hans og Selenskí.
Hann var að endingu sýknaður af öldungadeildinni, þar sem Repúblikanar voru í meirihluta.
Kamala Harris, varaforseti og mótframbjóðandi Trumps, hefur tekið allt aðra afstöðu til Úkraínu.
Aukin gagnrýni
Útlit var fyrir að ekkert yrði af fundi Trumps og Selenskís. Á undanförnum dögum hefur gagnrýni Trumps í garð Selenskís aukist og hefur það verið rakið til viðtals við Selenskí sem birt var af New Yorker. Þar sagði forsetinn að Trump áttaði sig ekki á eðli átakanna í Úkraínu og Rússlandi og einfaldaði þau um of.
Þá sagði hann að JD Vance, varaforsetaefni Trumps, væri of öfgafullur og að hann hefði lagt til að stórum hluta Úkraínu yrði fórnað til Rússa.
Eftir það hefur Trump minnst tvisvar sinnum sagt í þessari viku að Úkraína sé í rúst og fólkið þar dáið. Úkraínumenn hefðu átt að semja um að láta land af hendi.
Á fundinum með Selenskí ítrekaði Trump að hann ætti í góðu sambandi við Vladimír Pútín, forseta Rússlands.
„Við eigum í mjög góðu sambandi,“ sagði Trump um Selenskí. „Ég á einnig í góðu sambandi, eins og þú veist, við Pútín. Ef við vinnum, held ég að við klárum þetta mjög fljótt.“
Við það greip Selenskí frammí og sagðist vona að samband þeirra tveggja væri betra en samband Trumps og Pútíns.
Trump: I have a very good relationship with President Putin
— Acyn (@Acyn) September 27, 2024
Zelenskyy: I hope we have more good relations with us
Trump: Oh, ha ha I see pic.twitter.com/5vgHy0xT0t