Dómsmálaráðherra sagði frá því í síðustu viku að til stæði að hækka varnargarða norðaustan og norðvestan við Svartsengi verulega, með það fyrir augum að verja orkuverið. Jarðverkfræðingur hjá Eflu segir um þrjá garða að ræða, sem eldgos í nóvember hafi sett mikið álag á.
Einbeita sér að veikasta punktinum
„Þá liggur fyrir að það er veikleiki þar sem þarf að bæta úr til að gerta tekið á móti næstu hraunstraumum. Það er aðallega þetta „L2“ svæði sem er frá Grindavíkurvegi og niður að Njarðvíkuræðinni sem er veikasti punkturinn. Aðalfókusinn er að hækka það,“ segir Jón Haukur Steingrímsson jarðverkfræðingur.
Breytilegt sé hversu háir garðarnir verði eftir hækkun.

„Þetta eru svona átta, níu metrar, og svo deyr það út þarna til vesturs, hægt og rólega. Víða er þetta átta metrar, fylgir hrauninu og dettur svo niður vestan við Bláa lónið.“
Horfa til upphafs febrúar
Verið sé að áætla hvað aðgerðir muni taka langan tíma og hvernig vinnufyrirkomulagi verði háttað.
„Það eru ákveðnar vísbendingar um að mögulega þurfum við að vera undirbúnir undir næsta atburð í byrjun febrúar, eitthvað þess háttar,“ segir Jón Haukur.
„Það þyrfti að nást að koma megninu af þessu fyrir vind á svona fjórum, fimm vikum á nýju ári.“
Haft hefur verið eftir dómsmálaráðherra að hækkunin muni kosta allt að 1,25 milljarða, og heildarkostnaður við garðana sé orðinn meiri en tíu milljarðar. Það sé þó til mikils að vinna að halda heitu vatni á Suðurnesjum.
„Það er stóra málið sem er undir, fyrir utan auðvitað að missa sjálft orkuverið. Það yrði gríðarlegt samfélagslegt tjón.“