Tilkynnt var um ákvörðunina í gær og fór Zuckerberg ekki í grafgötur með það að hún tengdist úrslitum nýafstaðinna forsetakosninga í Bandaríkjunum, þar sem Donald Trump sigraði Kamölu Harris.
Zuckerberg sagði í gær að Meta myndi vinna að því með Trump að leggja þrýsting á stjórnvöld út um heim allan, sem hefðu barist fyrir aukinni ritskoðun og sótt að bandarískum fyrirtækjum hvað það varðaði.
Nefndi hann Evrópu og Suður-Ameríku sérstaklega í þessu samhengi.
Breytingarnar fela meðal annars í sér að dregið verður verulega úr eða fallið algjörlega frá eftirliti með sannleiksgildi færslna. Þess í stað stendur til að fara að dæmi X, sem er í eigu Elon Musk, og láta notendur um það að gera athugasemdir og setja hlutina í samhengi.
Zuckerberg segir eftirlitið hafa verið orðið allt of hlutdrægt og að framvegis verði minni áhersla lögð á að fylgjast með færslum þar sem fjallað er um til að mynda innflytjendur og kyn.
Ólöglegt efni og alvarlegt efni þar sem fjallað er um til að mynda sjálfsvíg og sjálfskaða verður áfram undir eftirliti.
Fregnirnar hafa vakið hörð viðbrögð og Zuckerberg verið harðlega gagnrýndur fyrir að beygja sig algjörlega undir Trump. Áhyggjur eru meðal annars uppi um að breytingarnar muni opna dyrnar á flóð hatursáróðurs gegn konum, hinsegin fólki og minnihlutahópum.
Sjónvarpsmaðurinn Piers Morgan var hins vegar á meðal þeirra sem tóku fréttunum fagnandi og sagði um að ræða algjöra u-beygju gagnvart „woke“ ritskoðun og „slaufunarmenningarkjaftæði“.