Skoðun

Heimur hins sterka og ó­vissan fram­undan

Hilmar Þór Hilmarsson skrifar

Donald Trump er kominn í Hvítahúsið sem forseti Bandaríkjanna öðru sinni. Undanfarnar vikur hefur hann látið ýmislegt flakka t.d. að talað um yfirtöku á Grænlandi og Panama skurðinum og að gera Canada í fylki í Bandaríkjunum. Bandaríkin eru valdamesta stórveldið og verðandi forseti gat sagt nánast hvað sem var og komist upp með það. Trump getur svo ekki boðið sig ekki fram aftur, því í lok kjörtímabilsins hefur hann verið forseti Bandaríkjanna í átta ár. Hann þarf ekki að hugsa um næstu forsetakosningar og hefur aldrei verðið valdameiri en nú.

Útþenslustefna?

Lengi hafa vesturlönd talað um útþenslustefnu Rússlands og slíkt hefur oft einkennt stórveldi. Til fróðleiks má geta þess að Kanada og Grænland eru samtals um 20 sinnum stærri en öll Úkraína og um 100 sinnum stærri en sá hluti Úkraínu sem Rússar ráða nú yfir. Hér er aðeins um samanburð á stærð landsvæðis að ræða. Donald Trump hefur ekki hótað að beita hervaldi gagnvart Kanada þó það hafir ekki verið útilokað í tilviki Grænlands. Best væri að þetta endaði þannig að sjálfstætt Grænland semdi við Bandaríkin þannig að tekið væri tillit til öryggishagsmuna Bandaríkjanna á norðurslóðum.

Svo er deilt um stækkun NATO sem nemur 16 aðildaríkjum síðan Sovétríkin féllu og eru NATO ríkin nú 32. Rússnesk stjórnvöld líta á stækkun NATO lengra austur en sem nemur Austur Þýskalandi sem svik við sig, en hafa verður í hugað að nýju aðildarríki sóttust sjálf eftir aðild. Donald Trump hefur nýlega sýnt sjónarmiði Rússa skilning, þ.e. andstöðuna við NATO aðild Úkraínu „President-elect says he understands Moscow’s feelings about having ‘somebody right on their doorstep.’“ sjá https://www.theguardian.com/world/2025/jan/08/ukraine-war-briefing-trump-sympathises-with-russian-stance-against-ukraine-joining-nato

Svo má spyrja hvort Úkraínustríð hefði brotist út með Trump sem forseta í febrúar 2022?

Óleyst vandamál á alþjóðavettvangi

Mörg óleyst vandamál bíða Donalds Trump. Í Evrópu heldur Úkraínustríðið áfram, vandamál eru í Mið-Austurlöndum og spenna í samskiptum við Kína. Engin augljós lausn er til á neinu þessara mála.

Varðandi Úkraínustríðið virðist Vesturlönd vilja vopnahlé en Vladimir Pútin leggur áherslu á friðarsamninga með kröfu um að: (i) Úkraína verði alltaf hlutlaust ríki og aldrei í NATO, (ii) að hún láti af hendi fjögur héruð (Donetsk, Luhansk, Kherson and Zaporizhzhia oblasts), og (iii) að Krímskaginn tilheyri Rússandi. Pútin vill ekki vopnahlé að ótta við að það verði notað til að vopnavæða Úkraínu enn frekar og þjálfa fleiri hermann. Rússneski herinn sækir fram á austur víglínunni.

Kröfurnar sem Pútin setur eru erfiðar fyrir Donald Trump og aðra leiðtoga Vesturlanda. Í kappræðum við Harris sagði Trump að þær væru óásættanlegar. Samþykkir hann þær nú sem forseti? Fengist stuðningur í Úkraínu eða á Vesturlöndum við slík málalok? Varla. Stríðið heldur því áfram en hætta á að staða Úkraínu verði enn verri síðar á þessu ári.

Staðan er heldur ekki góð í Mið-Austurlöndum. Jafnvel þó vopnahlé á Gaza haldi er varanleg lausn ekki í sjónmáli með stofnun sjálfstæðrar Palestínu við hlið Ísrael, svokallaða tveggja ríkja lausn. Hamas á Gaza svæðinu er ósigrað, sama gildir um Hizbollah í Líbanon og Houthis í Jemen. Sambandið við Íran er slæmt og grunur um að landið keppist við að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Íran og Rússland vinna nú náið saman.

Spenna er á milli Bandaríkjanna og Kína sérstaklega á Suður-Kínahafi en einnig á Austur- Kínahafi og vegna Taívan. Lítið talsamband er á milli landanna. Spenna er einnig á Kóreuskaganum. Vegna Úkraínustríðsins er náin samvinna milli Kína og Rússlands, svokallað "no limits partnership.“

Innflytjendamál

Donald Trump hefur harða stefnu í innflytjendamálum. Staðreyndin er hinsvegar sú að innflytjendamenning (e. immigrant culture) er eitt að því sem gerði Bandaríkin að stórveldi. Stórveldi þarf ekki bara auð heldur líka nægan fólksfjölda.

Vegna lágrar fæðingatíðni í Bandaríkjunum skiptir miklu máli fyrir Bandaríkin að halda áfram að flytja inn hæfileikaríkt fólk vilji landið halda stöðu sinni í heiminum. Hörð stefna gegn innflytjendum þjónar ekki hagsmunum Bandaríkjanna til lengri tíma litið.

Kanada og Grænland

Krafan um að Kanada verði fylki í Bandaríkjunum er varla raunhæf nema Kanadamenn vilji það sjálfir. Hugsanlega var þessu varpað fram til að gera lítið úr Justin Trudeau fráfarandi forsætisráðherra Kanada. Trump hefur ekki hótað að beita hervaldi gagnvart Kanada heldur látið nægja að hóta tollum.

Öðru máli gegnir með Grænland sem vill sjálfstæði og hefur undanfarin ár verið að ganga frá sinni eigin stjórnarskrá. Grænland er nú statt í hringiðu stórveldasamkeppni þar sem samvinna Rússa og Kína er orðin mjög náin vegna Úkraínustríðsins.

Efnahagslögsaga Rússlands á norðurlóðum er lang stærst og miklu stærri en efnahagslögsaga Bandaríkjanna vegna Alaska. Bandaríkin vilja styrkja sína stöðu þá þessu svæði. Staða Dana vegna Grænlands er erfið enda treystir Danmörk á Bandaríkin í öryggismálum og kaupir Bandarísk vopn sem ekki er hægt að halda við eða endurnýja nema með aðstoð og samvinnu við Bandaríkin.

Hugsanleg átakasvæði í Evrópu – pólitísk upplausn og efnahagslægð

Evrópa í vandræðum og verðu líklega lengi enn. Hugsanleg átakasvæði á næstu árum eru t.d.: (i) Eystrasaltið þar sem sæstrengir hafa þegar verið skemmdir, að ekki sé minnst á eyðileggingu Nord-Stream 2, (ii) Norðurslóðir þar sem stórveldin takast á um siglingaleiðir og auðlindir á landi og í sjó, (iii) Moldóva sem er umsóknarland í ESB og vill nánara samband við NATO, (iv) Georgía sem umsóknarland í ESB og átti að fara í NATO með Úkraínu 2008 og ekkert varð af, (v) Kaliningrad sem er á milli NATO ríkjanna Litáen og Póllands, (vi) Hvíta-Rússland þegar Alexander Lukashenko bandamaður Pútin fer með völd, og að lokum (vii) eru landamæri Eystrasaltsríkjanna viðkvæm.

Donald Trump hefur nýlega nefnt að NATO ríki skuli eyða 5% af vergri landsframleiðslu til varnarmála, sjá t.d. https://www.euronews.com/my-europe/2025/01/14/european-defence-ministers-say-trumps-nato-spending-target-is-unrealistic

Það stefnir í mikla veislu hjá hergagnaframleiðendum, ekki síst í Bandaríkjunum, og stór vandræði í ríkisfjármálum Evrópu. Trump er svo enginn vinur NATO og talaði oft áður um að stofnunin væri úrelt (e. obsolete).

Tvö stærstu ríkin NATO Evrópu, Þýskaland og Frakkland, eru í pólitískri upplausn og í efnahagslegri lægð. NATO og ESB veikari stofnanir en áður. Evrópa treystir sér ekki til að mótmæla Bandaríkjunum nú frekar en á Búkarest fundinum í apríl 2008 þegar ákveðið var að Úkraína færi í NATO, sem svo ekki varð að, og stefnir ekki í.

Eru Sameinuðu þjóðirnar valdalaus tímaskekkja?

Stórveldin fara sínu fram og ekkert vald getur stöðvað þau. Sameinuðu þjóðirnar sem áttu að stuðla að friði í heiminum er vanmáttug stofnun.

Öryggisráðið, mikilvægasta stofnunin Sameinuðu þjóða kerfisins er þannig að Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland hafa neitunarvald. Það þýðir að Öryggisráðið virkar aðeins þegar þessu lönd eru öll sammála, en í því tilviki þyrfti ekki Öryggisráðið. Ef eitt þessara landa er á móti fæst engin niðurstaða vegna neitunarvaldsins. Svo er Öryggisráðið skipað eins og heimurinn var 1945.

Lönd eins og Indland, Japan, Þýskaland, Suður Ameríkuland eins og Brasilía, Afríkuríki eins og Suður Afríka, eða eitthvert múslimaland eins og Tyrkland eða Indónesía, hafa ekki sömu stöðu og löndin fimm sem eru nú með neitunarvald. Valdajafnvægi í heiminum hefur breyst í grundvallar atriðum síðan Öryggisráðið varð til árið 1945 en ef fleiri lönd fengju neitunarvald yrði það líka gagnslaust.

Löndin sem þegar eru í Öryggisráðinu með neitunarvald myndu aldrei samþykkja að vera þar nema að geta beitt neitunarvaldi. Þau myndu aldrei láta meirihluta ákvörðun ráðsins verða bindandi og ráða gerðum sínum. Þess vegna mun ráðið og Sameinuðu þjóðirnar alltaf valda vonbrigðum þegar leysa þarf erfið mál.

Valdið er í höndum þjóðríkja (e. nation states)

Vald í heiminum er í höndum þjóðríka vegna þess að herir landa er undir stjórn hvers þjóðríkis fyrir sig. Stærstu þjóðríkin ráða mestu og taka þátt í stórveldasamkeppni og geta beitt hervaldi telji þau það nauðsynlegt. Við þessar aðstæður ræður frumskóalögmálið og stofnun eins og Sameinuþjóðirnar verður eins og málfundaklúbbur sem má sýn lítils. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna fær felst vandamál á sitt borð en getur lítið annað gert en að lýsa þungum áhyggjum sínum og biðja um meiri fjárframlög eins og venjulega.

Þjóðaröryggishagsmunir Íslands og Bandaríkjanna

Ísland er fjarri Úkraínustríðinu og átökunum í Mið-Austurlöndum, en nærri norðurslóðum þar sem spennan vex. Hin Norðurlöndin horfast í augu við átök í sínum bakgarði, Eystrasaltinu. Auk NATO aðildar er varnarsamningurinn við Bandaríkin frá 1951 ramminn um samstarf Bandaríkjanna og Íslands í öryggis og varnarmálum.

Samvinna og samskipti Bandaríkjanna og Íslands hefur gengið vel í áratugi. Öryggishagsmunir landanna fara saman. Staðan gæti verið verri í öryggismálum Íslands, en engin er öruggur í heimi stórveldasamkeppni þar sem sá sterki ræður.

Útgjöld Íslenska ríkisins vegna stríðs sem aldrei þurfti að verða

Íslensk stjórnvöld hafa þegar skuldbundið þjóðina um 25,5 milljarða íslenskra króna vegna aðstoðar við Úkraínu. Núverandi utanríkisráðherra talaði um að í nýlegri ferð til Úkraínu að Ísland myndi svo styðja við uppbyggingu Úkraínu sem væntanlega verða einhverjir tugir milljarða í viðbót? Í dag er Úkraína að töluverðu leyti rústir einar og innviðir að miklu leyti ónýtir.

Síðan verður karfan um framlög Íslands til varnarmála sífellt háværari sem gæti orðið á bilinu 85 til 210 milljarðar króna á ári miðaða við reglur NATO og nýlegar kröfur Donald Trump til NATO ríkja. Þá væri Íslenskt samfélag eins og við þekkjum það í dag orðið ósjálfbært.

Allt þetta vegna stríðs sem aldrei hefði þurft að verða og hefur afleiðingar sem sífellt munu koma á óvart.

Höfundur er prófessor við Háskólann á Akureyri og starfaði um 12 ára skeið hjá Alþjóðabankanum í Washington, Ríga og Hanoí.




Skoðun

Sjá meira


×