Erlent

Yfir­maður strandgæslunnar látinn fjúka

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Linda Fagan yfirmaður bandarísku strandgæslunnar hefur verið látin fjúka. Ríkisstjórn Trumps hyggst reka um þúsund embættismenn sem samrýmast ekki framtíðarsýn þeirra um það hvernig skuli gera Bandaríkin frábær á ný.
Linda Fagan yfirmaður bandarísku strandgæslunnar hefur verið látin fjúka. Ríkisstjórn Trumps hyggst reka um þúsund embættismenn sem samrýmast ekki framtíðarsýn þeirra um það hvernig skuli gera Bandaríkin frábær á ný. Getty

Linda Fagan, yfirmaður bandarísku strandgæslunnar, hefur verið látin taka pokann sinn. Í uppsagnarbréfinu er sagt að henni hafi mistekist að tryggja öryggi á landamærunum og að framtíðarsýn nýrrar ríkisstjórnar samrýmist ekki áherslum hennar á fjölbreytileika og inngildingu. Trump segir að til standi að reka fleiri en þúsund embættismenn frá fyrri ríkisstjórn á næstu dögum.

Donald Trump hefur þegar rekið minnst fjóra embættismenn sem ráðnir voru á síðasta kjörtímabili, og segir að nú sé verið að kanna það hverjir samrýmist ekki framtíðarsýn nýrrar ríkisstjórnar um það hvernig skuli gera Bandaríkin frábær aftur.

Trump tilkynnti um þetta á samfélagsmiðli sínum Truth Social.

Færsla Trump.Skjáskot

Linda Lee Fagan var samkvæmt The Telegraph fyrsti kvenkyns yfirmaðurinn í bandaríska hernum. Hún fékk uppsagnarbréf í dag þar sem fram kom að henni hefði brugðist bogalistinn í starfi sínu.

Elon Musk vandaði henni ekki kveðjurnar á samfélagsmiðlinum X.

„Það er ekki lengur í boði að grafa undan Bandaríkjaher og landamæraeftirliti og eyða í staðinn peningum í DEI kynþáttahyggju og annað rugl,“ sagði Musk í mjög lauslegri þýðingu.

DEI stendur fyrir „diversity, equity, inclusion“ og þýðir fjölbreytileiki, jafnrétti og inngilding. DEI er stefna sem ríkisstjórn Joes Biden hafði að leiðarljósi í allri sinni stefnumörkun og hefur það að markmiði að jafna hlut þeirra sem á brattann eiga að sækja vegna kynþáttar, kynhneigðar eða annars slíks. Ríkisstofnanir þyrftu að horfa til þessara sjónarmiða í sinni stefnumörkun og ráðningum meðal annars.

Ríkisstjórn Trumps er ósammála þessari nálgun og telur hana vinna gegn sjálfri sér. Meðal þeirra ótal forsetatilskipana sem Trump skrifaði undir í gær var ein sem kvað á um að horfið verði algjörlega frá þessum sjónarmiðum í stefnu stjórnvalda.

Undir stjórn Lindu Fagan voru þær breytingar gerðar á ráðningarferlum bandarísku strandgæslunnar fyrir árin 2024 - 2026, að horfa þurfi til „menningarlegrar hæfni umsækjenda, og hugmynda þeirra um fjölbreytileika og jafnrétti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×