Erlent

Flestir starfs­menn USAid sendir í leyfi og 2.000 störf lögð niður

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Musk heldur keðjusög á lofti á Conservative Political Action Conference í síðustu viku.
Musk heldur keðjusög á lofti á Conservative Political Action Conference í síðustu viku. Getty/Andrew Harnik

Stjórnvöld í Bandaríkjunum tilkynntu í gær að nær allir starfsmenn USAid yrðu sendir í launað leyfi og samhliða yrðu 2.000 störf hjá stofnuninni lögð niður.

Ákvörðunin hefur áhrif á alla starfsmenn USAid nema þá sem þykja sinna lykilhlutverki í ákveðnum verkefnum. 

USAid er sú stofnun sem hefur haft veg og vanda af því að halda utan um aðstoð Bandaríkjanna á heimsvísu en auðjöfurinn Elon Musk, sem fer fyrir niðurskurðaraðgerðum Donald Trump Bandaríkjaforseta, hefur sagst ætla að setja stofnunina í „trjákurlarann“.

Trump hafði áður sett utanríkisráðherrann Marco Rubio yfir stofnunina og virðist tilkynningin hafa komið frá skrifstofu hans. Reuters hefur eftir tveimur heimildarmönnum að ákvörðunin muni fela í sér að meirihluti 4.600 starfsmanna USAid verði sendir í leyfi.

Forsetinn fyrirskipaði 90 daga stöðvun á öll útgjöld sem fóru í erlenda aðstoð skömmu eftir að hann tók embætti en stjórnvöld hafa veitt undanþágur upp á 5,3 milljarða dala, að stærstum hluta vegna verkefna er varða öryggismál og baráttuna gegn fíkniefnum.

USAid hefur fengið undanþágur fyrir tæpum 100 milljónum dala en hingað til hefur kostnaður við verkefni stofnunarinnar numið um það bil 40 milljörðum dala á ársgrundvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×