Skoðun

Ósann­gjörn skipting kíló­metra­gjalds

Njáll Gunnlaugsson skrifar

Það ætlar að sannast hið forkveðna, að það breytist lítið sem ekkert með nýjum herrum. Ný ríkisstjórn lagði fram um helgina „nýtt“ frumvarp um kílómetragjald og þar er líkt og fyrir áramót gert ráð fyrir 4 kr gjaldi á kílómeter fyrir öll bifhjól. Er það ekki bara sanngjarnt, gæti einhver spurt? Við skulum skoða það aðeins betur og sjá hvað tölurnar segja okkur.

Allir bílar undir 3,5 tonnum greiða sama gjald eða 6,7 kr á km sem er aðeins hærra en bifhjól greiða. Ósanngirnin liggur í þeirri staðreynd að munurinn á 3,5 tonna bíl og meðalþungu bifhjóli er meira en tífaldur! Ef við skoðum síðan létt bifhjól sem eiga að greiða sama gjald og önnur bifhjól er munurinn enn meiri en slík hjól ná varla 100 kg sem er þrisvar sinnum minna en stór bifhjól. Það segir sig sjálft að það er mikil ósanngirni í því að láta muna bara 2,7 kr á tækjum sem eru allt að 35 sinnum þyngri en létt bifhjól.

Fjórfalt ódýrara fyrir erlend bifhjól!

Það sem gerir þetta svo enn skrýtnara er þegar kemur að útreikningum stjórnvalda varðandi ökutæki á erlendum númerum. Þar er miðað við fast akstursgjald að lágmarki til 10 daga og er gjaldið 13.400 kr þegar kemur að bílum undir 3,5 tonnum. Bifhjól á erlendum númerum eiga hins vegar að greiða 3.350 kr fyrir fyrstu tíu dagana sem er fjórum sinnum lægra en fyrir fólksbíla. Ef þetta er viðmið stjórnvalda fyrir erlend ökutæki segir það sig sjálft að íslenskt bifhjólafólk geri þá sjálfsögðu kröfu að greiða fjórum sinnum lægra gjald en bifreiðar enda er það nokkuð nærri lagi þegar horft er til munar á þyngd ökutækja. Það hlýtur því að vera krafa bifhjólafólks að kílómetragjald bifhjóla lækki niður í 1,7 kr fyrir þung bifhjól til að fullrar sanngirni sé gætt! Að sama skapi væri eðlilegt að létt bifhjól greiði 0,6 kr á kílómetra.

Höfundur er bifhjólakennari, og mótorhjólamaður til 40 ára og hefur oft séð ósanngjarna lagaetningar er kemur að bifhjólum. Sjaldan þó meira en einmitt nú.




Skoðun

Skoðun

Plastflóðið

Emily Jaimes Richey-Stavrand,Johanna Franke,Laura Sólveig Lefort Scheefer skrifar

Sjá meira


×