Sport

Gunnar tapaði á stigum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kevin Holland náði of mörgum góðum höggum á Gunnar.
Kevin Holland náði of mörgum góðum höggum á Gunnar. Jeff Bottari/Zuffa LLC

Gunnar Nelson tapaði bardaga sínum gegn Kevin Holland á stigum dómara. Gunnar var vankaður í fyrstu lotu og lenti í vandræðum, náði samt að koma sér í góða stöðu undir lokin en tókst ekki að láta andstæðinginn gefast upp.

Eftir að hafa náð Holland í gólfið í fyrstu lotu fékk Gunnar fast högg í andlitið rétt áður en tíminn rann út. Gunnar vankaðist og var við það að detta aftur fyrir sig en náði rétt svo að bjarga sér og sem betur fer glumdi bjallan nokkrum sekúndum síðar.

Í annarri lotu virkaði Gunnar enn hálf vankaður og tókst illa að taka hann niður í gólfið. Á meðan lét Holland höggin dynja og raðaði inn stigum.

Báðir voru þeir orðnir mjög þreyttir í þriðju og síðustu lotunni en Gunnar náði með frábæra bragði að fella Holland þegar rúmlega þrjár mínútur voru eftir.

Gunnar náði honum í gólfið. Jeff Bottari/Zuffa LLC
Gunnar var með Holland í hengilás sem hann losaði sig úr. Jeff Bottari/Zuffa LLC

Síðan kom Gunnar sér í góðu stöðu og hengdi lás utan um höfuð Holland, en á einhvern ótrúlegan hátt náði hann að smeygja sér út úr því. Þar fór möguleiki Gunnars á að vinna bardagann.

Allir dómarar skoruðu bardagann 29-28, Kevin Holland í vil.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira
×