Erlent

Segist ætla finna or­sök ein­hverfu fyrir septem­ber

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Robert F Kennedy yngri er heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna.
Robert F Kennedy yngri er heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna. EPA

Robert F Kennedy yngri, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, ætlar með miklu rannsóknarátaki að finna hver orsök einhverfu sé, á einungis fimm mánuðum. Sérfræðingar segja viðleitnina óraunhæfa og afvegaleidda.

„Í september munum við vita hvað hefur valdið einhverfufaraldri og við munum geta útrýmt tilfellum,“ sagði Kennedy samkvæmt umfjöllun BBC.

Ráðherrann vill fara í rannsóknarátak en einhverfugreiningar hafa aukist til muna síðan um aldamót. Talið er að um 2,7 prósent átta ára barna séu einhverf. Vísindamenn segja auknar greiningar vera að hluta til vegna vitundarvakningar um heilkennið.

Bandaríska heilbrigðisstofnunin eyðir um þrjú hundruð milljónum bandarískra dollara, tæpir 39 milljarðar í íslenskum krónum, í rannsóknir á einhverfu ár hvert. Hugsanlegir áhrifaþættir eru loftmengun, ótímabær fæðing og heilsufarsvandamál móður.

Kennedy vill einnig láta rannsaka tengsl einhverfu og bóluefna. Hugmyndir um að bóluefni valdi einhverfu koma frá afsannaðri rannsókn Andrew Wakefield sem birti rannsókn um tengsl milli bóluefna og einhverfu. Seinna meir kom í ljós að hann átti í fjárhagslegum hagsmunaárekstrum og var rannsóknin dregin til baka.

Samtök einhverfra í Bandaríkjunum hafa gagnrýnt áform Kennedy og kalla þau óraunhæf og villandi. 

„Þetta er hvorki langvarandi sjúkdómur né smitsjúkdómur,“ segja fulltrúar Samtakanna.

Christopher Banks, forseti Samtakanna segir að fullyrðingar um að einhverfa orsakist einungis af umhverfisþáttum vera villandi. Þess kyns fullyrðingar viðhaldi skaðlegum fordómum, stofni lýðheilsu í hættu og dragi athyglina frá mikilvægum þörfum einhverfusamfélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×