Erlent

Tugir sagðir liggja í valnum eftir eldflaugaárás á Sumy

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá miðborg Sumy í Úkraínu.
Frá miðborg Sumy í Úkraínu.

Margir óbreyttir borgarar eru sagðir liggja í valnum eftir að að minnsta kosti ein rússnesk skotflaug lenti í miðborg Sumy í norðurhluta Úkraínu. Sprengjuflaugin lenti þegar margir voru á götum borgarinnar og á leið til kirkju að fagna pálmasunnudegi.

Myndefni frá Sumy sýnir fjölda líka á götum borgarinnar, brennda bíla og mjög skemmdan strætisvagn. Fyrstu tölur frá yfirvöldum í Úkraínu segja að minnsta kosti 21 dáinn og 83 særða. Búist er við að tala látinna muni hækka.

Utanríkisráðherra Úkraínu segir marga látna og særða og kallar eftir auknum þrýstingi á Vladimír Pútín, forseta Rússlands, og bættum loftvörnum í Úkraínu. Í stað þess að samþykkja tillögur Donalds Trump um almennt vopnahlé hafi Rússar frekar aukið árásir sínar á Úkraínu.

„Styrkur er eina tungumálið sem þeir skilja og eina leiðin til að binda enda á þennan hrylling,“ skrifar Andrii Sybiha. Borgarstjóri Sumy hefur slegið á svipaða strengi og segir einnig marga liggja í valnum.

Sjá einnig: Skjótasta leiðin að friði að verða við kröfum Rússa

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir tugi látna og særða.

„Einungis ógeðfelld úrhrök geta hagað sér svona og drepið óbreytta borgara,“ skrifaði forsetinn. Hann kallar einnig eftir hertum aðgerðum geng Rússlandi frá Evrópu og Bandaríkjunum og segir það einu leiðina til að binda enda á ástandið. Án þrýstings á Rússland sé friður ómögulegur.

„Viðræður hafa aldrei stöðvað skotflaugar og sprengjur. Það sem þarf er það viðhorf gagnvart Rússlandi sem hryðjuverkamenn eiga skilið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×