Upp­gjörið: Þróttur - Fram 3-1 | Ný­liðarnir máttu þola tap í endur­komunni

Ari Sverrir Magnússon skrifar
Freyja Karín fagnar öðru af mörkum sínum í kvöld.
Freyja Karín fagnar öðru af mörkum sínum í kvöld. Vísir/Anton Brink

Þróttur Reykjavík tók á móti nýliðum Fram í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta en þetta var fyrsti leikur kvennaliðs Fram í efstu deild frá árinu 1988. Fór það svo að Þróttur vann 3-1 sigur á nýluðunum. 

Leikurinn var einkar einhliða og Þróttur var með öll völd á vellinum og sóttu mikið upp á vængjum vallarins þar sem Fram virtist hafa fá svör. Fyrsta mark leiksins kom á 25 mínútu en þá skoraði Freyja Karín Þorvarðardóttir, markið kom eftir stoðsendingu Caroline Murray eftir að hún hafði keyrt upp hægri kantinn og sent boltann út í teig. 

Fyrsta marki leiksins fagnað.Vísir/Anton Brink

Stuttu eftir það þurfti Olga Ingibjörg Einarsdóttir að fara velli vegna meiðsla en óvíst hve alvarleg meiðsli hennar eru. Á 45 mínútu dró til tíðinda þegar að Freyja Karín Þorvarðardóttir skoraði sitt annað mark í leiknum eftir laglega skyndisókn Þróttar. Hálfleikstölur voru því 2-0.

Úr leik kvöldsins.Vísir/Anton Brink

Í seinni hálfleik voru heimakonur enn mun sterkari aðilinn og misstu vart boltann fyrstu mínúturnar. Yfirburðirnir voru töluverðir og Þróttur voru í raun óheppnar að komast ekki í 3-0 forystu á 65 mínútu þegar að Unnur Dóra Bergsdóttir átti skalla í þverslá eftir fyrigjöf Caroline Murray.

Á 75 mínútu leiksins náðu Fram að minnka muninn þegar að Murielle Tiernan skoraði með glæsilegu skoti eftir enn betri hælsendingu Unu Rós Unnarsdóttur. 

Fram fagnar.Vísir/Anton Brink

Framkonur reyndu eins og þær gátu eftir það að jafna leikinn en það gekk ekki og Þróttur náði að bæta við einu marki þegar að Þórdís Elva Ágústsdóttir var fyrst að átta sig og náði frákasti eftir skot frá Unni Dóru Bergsdóttur eftir að Elaina Carmen La Macchia hafði varið vel.

Lokatölur voru því 3-1 fyrir Þrótt og heimakonur sáttar með sín fyrstu þrjú stig á tímabilinu.

Fagnað í leikslok.Vísir/Anton Brink

Atvik leiksins

Mark Fram var af dýrari gerðinni en eftir laglegt samspil fyrir framan markteig Þróttar endaði Una Rós á því að senda boltann með hælnum á Murielle Tiernan sem slúttaði af öryggi.

Stjörnur og skúrkar

Lið Þróttar stóð sig virkilega vel í dag og þá sérstaklega bakverðirnir Caroline Murray og Mist Funadóttir en þær voru eins og rakettur upp og niður kantana í dag.

Mist átti góðan leik.Vísir/Anton Brink

Freyja Karín var einnig virkilega góð í dag og hljóp á við þrjá leikmenn. Einnig skoraði Freyja tvö mörk. Hún er nú þegar búin að jafna markafjölda sinn frá síðasta tímabili.

Varnarmenn Fram áttu hins vegar erfiðan leik og boltinn komst ítrekað á bakvið vörnina þar sem Þróttur unnu hornspyrnur eða skoruðu mörk eftir fyrirgjafir.

Dómarinn

Ásmundur Þór Sveinsson átti fínan leik og þurfti ekki að taka margar stórar ákvarðanir. Gulu spjöldin 3 áttu öll rétt á sér og því lítið út á hann að setja. Það var þó að minnsta kosti tvisvar þar sem rangt lið hlaut innkast eftir að boltinn fór út af vellinum.

Átti fínan leik.Vísir/Anton Brink

Stemning og umgjörð

Það var fín stemning á AVIS vellinum í dag, það var ágæt mæting og veðrið lék við leikmenn og áhorfendur.

„Pláss á vængjunum og við vildum nýta okkur það“

Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar.Vísir/Anton Brink

Ólafur Kristjánsson var sáttur að með úrslit leiksins og hvernig Þróttur spilaði leikinn.

„Mjög sáttur með leikinn og hvernig stelpurnar útfærðu hann í gegnum 90 mínútur. Eins og Fram spilaði í dag þá var pláss á vængjunum og við vildum nýta okkur það.“

Ólafur var virkilega sáttur með Freyju Karín sem skoraði tvö mörk í dag og hljóp mikið.

„Freyja er alltaf On, hún er eflaust ennþá hlaupandi eitthversstaðar hérna þannig vinnuframlagið er alltaf gott og það sem Freyju hefur vantað og vonandi er það að koma er að setja boltann inn í færunum og hún gerði mjög vel í dag.“

Freyja Karín gekk einnig sátt frá borði: „Að sjálfsögðu er maður sáttur, þetta er alltaf gaman að geta skorað mörk þannig ég geng sátt frá leiknum.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira