Ó­vænt vand­ræði á Villa Park en PSG í undanúr­slit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Donnarumma var svo sannarlega betri en enginn í kvöld.
Donnarumma var svo sannarlega betri en enginn í kvöld. EPA-EFE/TIM KEETON

París Saint-Germain lenti í allskonar vandræðum gegn Aston Villa á Villa Park í síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu karla í knattspyrnu. Lokatölur í kvöld 3-2 heimamönnum í vil en þökk sé 3-1 sigri á heimavelli vinnur PSG einvígið 5-4 samanlagt.

Gestirnir frá París voru í góðri stöðu eftir fyrri leik liðanna og þá virtist sem starfslið Aston Villa, allavega sá eða sú sem sér um tónlistina, hefði ekki trú á sigri í kvöld.

Góð staða varð enn betri þegar aðeins ellefu mínútur voru liðnar af leiknum. Eftir að Villa hafði farið með marga menn fram þá unnu gestirnir boltann. Á endanum kom lág fyrirgjöf frá vinstri sem Emi Martínez, markvörður Villa, taldi sig geta handsamað.

Það gekk ekki betur en svo að Martínez sló boltann út í teig þar sem bakvörðurinn Achraf Hakimi kom á ferðinni og skoraði í fyrsta. Staðan orðin 0-1 og Villa í vondum málum. 

Þessir tveir voru nokkuð óvænt báðir meðal markaskorara í kvöld.EPA-EFE/TIM KEETON

Lengi getur vont versnað en Nuno Mendes, hinn bakvörður PSG, tvöfaldaði forystu gestanna þegar tæpur hálftími var liðinn. Youri Tielemans minnkaði hins vegar metin með skoti sem fór af varnarmanni og í netið, staðan 1-2 í hálfleik. 

Miðjumaðurinn frá Belgíu gaf Villa von.EPA-EFE/TIM KEETON

Eftir tæpar tíu mínútur í síðari hálfleik hafði Villa jafnað metin. Fyrirliðinn John McGinn óð frá eigin vallarhelmingi með boltann. Þegar hann nálgaðist vítateiginn ákvað Skotinn bara að láta vaða. Boltinn flaug í hornið fjær, algjörlega óverjandi fyrir Gianluigi Donnarumma í marki gestanna.

Rétt áður - og skömmu eftir - mark McGinn hafði Donnarumma varið frábærlega frá Marcus Rashford. Eftir að Donnarumma hafði varið síðara skotið frá Rashford, og fagnað eins og óður maður, komst Villa yfir. Ezri Konsa skoraði þá eftir að boltinn hafði borist aftur til Rashford eftir hornspyrnu. Hann lék á mann og annan áður en hann renndi boltanum út á Konsa sem skoraði með föstu skoti niðri í hornið nær. Staðan orðin 3-2 og staðan í einvíginu óvænt orðin 4-5.

Rashford átti góðan leik.EPA-EFE/TIM KEETON

Stuttu síðar hélt Tielemans að hann hefði jafnað metin í einvíginu en Donnarumma varði meistaralega. Áfram hélt Ítalinn að gera heimamönnum skráveifu en hann varði einnig vel frá varamanninum Marco Asensio - sem er á láni hjá Villa frá PSG - þegar sá spænski slapp einn í gegnum vörn gestanna.

Eftir það má segja að sóknarlotur heimamanna hafi dvínað. Hægt og rólega tókst gestunum að kæfa leikinn sem gerði það að verkum að Villa náði aldrei inn þriðja markinu sem hefði sent einvígið í framlengingu. Segja má því að PSG hafi kveðið niður ákveðna drauga en félagið er þekkt fyrir að misstíga sig illa þegar mest á reynir í Meistaradeildinni. 

Donnarumma þakkar æðri máttarvöldum.EPA-EFE/TIM KEETON

París Saint-Germain er komið í undanúrslit og mætir þar Arsenal eða Evrópumeisturum Real Madríd. Skytturnar hans Mikel Arteta eru 3-0 yfir eftir magnaðan sigur í fyrri leik liðanna en aldrei að segja aldrei þegar kemur að Real Madríd.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira