Skoðun

Nokkur orð um stöðuna

Dögg Þrastardóttir skrifar

Við erum flest ef ekki öll sammála um að staðan er ekki ásættanleg hvað meðferðarheimili fyrir börn varðar, þó það standi til bóta. Biðin er erfið, óásættanleg – fyrir börn og foreldra sem þurfa á úrræðunum að halda. Ástandið er einnig mjög erfitt fyrir starfsfólk í barnaverndinni og aðra sem eru með þessi börn í fanginu. Ég get sjálf ekki beðið eftir að taka á móti krökkunum á ný í nýju húsnæði Lækjarbakka og veit að ég er ekki ein um þá skoðun.

Fyrir rétt rúmu ári vorum við tilneydd til að fara úr húsnæði meðferðarheimilisins Lækjarbakka. Ég hefði aldrei trúað því að rúmu ári seinna væri heimilið enn lokað. Þegar húsnæði var komið í höfn þurftum við frá að hverfa. Við tók ný leit að húsnæði hjá okkur innan BOFS og hjá ráðuneytinu. Persónulega lagði ég mikið á mig við leit að húsnæði, það er í raun hálf súrrealískt að hugsa til baka. Ég leitaði um allt bókstaflega! Á netinu, auglýsti, vakti athygli á málinu, keyrði um allar þorpagrundir, skoðaði húsnæði og var stundum alveg við það að fara að banka uppá hjá fólki. Ákvað þó frekar að senda tölvupóst eða hringja. Ekkert gekk upp. Þetta var ekki svo einfalt. Hvorki að finna húsnæði til bráðabirgða né varanlegt. Allskonar hindranir. Á endanum tókst það, Gunnarsholt var í höfn.

En samt ekki. Það er mikil vinna fólgin í því að opna á ný. Breytingar, viðhald, aðlaga að starfseminni, fylgja lögum og reglum. Útboð. Vinna gögnin fyrir útboðið. Teikna upp. Húsið þarf að standast allar öryggiskröfur og vera vistlegt fyrir börn að dvelja. Það er unnið hörðum höndum að því að opna. Það er mikil vinna í gangi. Það er mikil pressa og allir að gera sitt allra besta. Vinna þetta sem hraðast - án þess að flýta sér um of. Við græðum heldur ekki á því, það þarf að vanda til verka.

En af hverju opnum við ekki bara meðferðarúrræði annars staðar á landinu? Persónulega hef ég ekkert á móti því. En það þarf að huga vel að því á alla vegu.

Miðað við mína reynslu undanfarið ár þá tel ég að bráðabirgðaúrræði annars staðar á landinu þar til Lækjarbakki opnar sé óraunhæft og tímafrekara en við myndum vilja (ég skal gjarnan hafa rangt fyrir mér). Það er alls ekkert víst að húsnæðið uppfylli skilyrði enda búið að herða mjög á hvað hollustuhætti og öryggi varðar. Kannski þarf að fara í vinnu og breyta einhverju? Við getum ekki heldur bara sætt okkur við eitthvað. En svo er það starfsfólkið. Það þarf að ráða nýtt starfsfólk og þjálfa.

Starfsfólkið er mikilvægasti parturinn í þessu öllu saman og ástæðan fyrir því að ég gaf mig alla í að finna húsnæði í nágrenni við gamla húsnæðið. Verandi með starfsfólk með menntun, reynslu og þjálfun. Starfið gekk vel. Ég veit að ég mun fá einhvern hluta af mínu góða starfsfólki til baka þegar við opnum Lækjarbakka á ný. Ég hlakka til að fá þau til baka og taka á móti krökkunum okkar. Sem allra fyrst.

Dögg Þrastardóttir, félagsráðgjafi og forstöðumaður Lækjarbakka.




Skoðun

Sjá meira


×