Skoðun

Nýr rektor og 2025 – tíma­mót í há­skóla­málum

Ástráður Eysteinsson, Magnús Karl Magnússon, Margrét Helga Ögmundsdóttir og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir skrifa

Markmið og raunveruleiki

Íslenska háskólasamfélagið stendur nú á tvöföldum tímamótum og skorum við á stjórnvöld að nýta tækifærið og blása til sóknar fyrir vísindastarf í landinu. Annars vegar hefur nýr rektor tekið við stjórnartaumum Háskóla Íslands. Silju Báru Ómarsdóttur bíða stór verkefni og er lykilatriði að hún verði vel nestuð í ferðalagið, sérstaklega í ljósi þeirra áskorana sem fylgja vanfjármögnun háskólastigsins. Hins vegar er árið 2025 gengið í garð – en á því ári ætluðu íslensk stjórnvöld sér að koma fjármögnun háskólastigsins upp að meðaltali Norðurlanda. Árið 2017 settu stjórnvöld sér það markmið að fjárframlög til háskólastigsins næðu meðaltali OECD ríkja árið 2020 og síðan meðaltali Norðurlanda árið 2025. Nú, fimm árum eftir fyrsta áfangann og við lok þess síðara, er ljóst að þessi markmið hafa ekki náðst.

Samkvæmt nýjustu gögnum er staða Íslands enn langt á eftir nágrannaþjóðunum og er raunar lægra en meðaltal OECD. Fyrir hverjar 100 krónur sem lagðar eru til háskólanema á Norðurlöndunum fara aðeins um 60 krónur í nemanda á Íslandi. Stjórnvöld hafa sjálf viðurkennt þessa þörf; í aðdraganda fjárlaga 2025 var talað um að þörf væri á um 40% viðbótarframlagi. Sú fyrirætlun hefur þó ekki skilað sér í framkvæmd þetta árið frekar en önnur.

Aukið fjármagn í kerfinu en undirstöðurnar rýrðar

Hið svokallaða þekkingar- og nýsköpunarumhverfi hefur tekið stórstígum framförum hér á landi undanfarin ár og er það fagnaðarefni. Þetta rímar við atvinnustefnu stjórnvalda hvað varðar fjölgun hátæknistarfa og aukningu útflutningstekna hugvits. Efling þessa iðnaðar byggir að miklu leyti á þeim mannauði sem íslenskt háskólaumhverfi skapar og beinum fjárstuðningi stjórnvalda til nýsköpunarfyrirtækja. Heildarútgjöld til rannsókna og þróunar (R&Þ) á Íslandi hafa frá 2013 aukist um tæp 60% og náðu yfir 2,7% af landsframleiðslu árið 2023. Ísland hefur þar með náð meðaltali OECD á þessu sviði. Þessi hlutfallslega aukning síðastliðinn áratug er þó eingöngu drifin áfram af vaxandi rannsókna- og nýsköpunarútgjöldum fyrirtækja. Einkageirinn stendur nú undir um 75% allrar fjárfestingar í rannsóknum hérlendis og fyrirtæki hafa aukið R&Þ-útgjöld sín um tugi milljarða króna á örfáum árum. Opinber stefna hefur knúið áfram þessa jákvæðu þróun; til að mynda hafa skattalegir hvatar og beinir styrkir til nýsköpunarfyrirtækja vaxið gríðarlega á undanförnum árum og standa undir fjórðungi af öllum R&Þ fjárfestingum fyrirtækja. Ísland styður R&Þ fyrirtækja meira en nokkur önnur þjóð í OECD. Á sama tíma hafa framlög til grunnrannsókna og háskóla setið eftir.

Afleiðingin er sú að þótt heildartölur um vísinda- og nýsköpunarfjármögnun líti vel út á yfirborðinu, þá hefur háskólasamfélagið ekki notið góðs af þessari þróun að sama skapi. Til að vísinda- og nýsköpunarstefna hins opinbera skili árangri þarf markvissa fjárfestingu til allra hlekkja í þessari mikilvægu keðju. Þó vissulega þurfi að beina fjármunum í hagnýtingu rannsókna og þróunar, þá byggir sú hagnýting á því að grunnrannsóknir og vísindaleg undirstaða og þekking til nýsköpunar sé til staðar í samfélaginu og náin samvinna sé milli háskóla og atvinnulífs. Til lengri tíma er lítið gagn í því að styrkja aðeins síðasta skref þessarar virðiskeðju, ef undirstöðurnar eru veikar. Samkeppnissjóðir sem veita rannsóknastyrki ráða enn aðeins við að styrkja lítið brot þeirra fjölmörgu verkefna sem sótt er um fjármagn fyrir á hverju ári. Í úthlutun þessa árs fengu einungis um 16–17% umsókna í aðalrannsóknasjóði landsins brautargengi. Fjöldi verðugra verkefna situr þannig eftir ófjármagnaður, þrátt fyrir að vilji og mannauður sé til staðar. Háskólar hafa því þurft að bregðast við með miklu aðhaldi í rekstri. Til marks um það hefur víða verið í gildi ráðningarbann, sem takmarkar getu skólanna til að bæta kennslu og þjónustu við nemendur. Annar þáttur sem einnig er vert að benda á er að rannsóknar- og þróunarfjárfesting þarf einnig að eiga sér stað innan þess atvinnulífs sem er að verulegu leyti á opinberum vettvangi. Þar má meðal annars nefna félags- og heilbrigðiskerfið, menningarstofnanir og menntakerfið. Þetta eru grunnstoðir samfélagsins og þar hefur hlutfall R&Þ útgjalda dregist verulega saman á síðasta áratug.

Tækifæri til stefnubreytingar

Nýr rektor tók við stjórnartaumum Háskóla Íslands þann 1. júlí og hún hefur með skeleggum hætti lýst metnaðarfullri framtíðarsýn fyrir hönd skólans. Umræða um gæði háskólakennslu og vísindastarfs fer vaxandi, og ljóst er að til að auka gæði og alþjóðlega samkeppnishæfni verða háskólar að fá nauðsynlegt bolmagn. Þegar litið er til samanburðarríkja þá eru það rannsóknarháskólar sem draga til sín hlutfallslega langmest af framlagi til háskóla. Það skýrist af markvissri fjárfestingu í rannsóknarstarfi þessara grundvallarstofnana. Ef við viljum sjá gróskumikla nýsköpun í öllum geirum samfélags okkar þá þarf nýsköpunarstefnu sem fjárfestir í vísinda- og nýsköpunarstarfi á öllum fræðasviðum, fjárfestingu sem stuðlar að grundvallarþekkingu og uppgötvunum. Samhliða slíkri fjárfestingu í vísindastarfi háskóla þá menntum við einnig vísindafólk framtíðar sem fer síðar til starfa í öllum geirum samfélagsins. Það dugir skammt að fyrirtækin ein efli rannsóknir sínar ef grunnstoðir þekkingarsamfélagsins – háskólarnir, vísindafólkið og nemendur – fá ekki nægt fjármagn til að sinna hlutverki sínu. Árið 2025 átti að marka þáttaskil í uppbyggingu háskólakerfisins samkvæmt stefnu stjórnvalda; nú þegar það markár er gengið í garð er brýnna en nokkru sinni fyrr að horfast í augu við stöðuna og bregðast við.

Til að veita íslenskum háskólum það brautargengi sem hæfir samfélagi eins og okkar verða stjórnvöld að ráðast í verulega fjárfestingu í innviðum menntunar og rannsókna. Í slíkri fjárfestingu felast ekki loftkennd útgjöld heldur lykill að framtíðarhagvexti og samfélagslegri velferð. Jafnframt þarf að styrkja tengsl háskólanna við samfélagið í víðum skilningi. Í lýðræðislegum þjóðfélögum eru háskólar í senn gagnrýnin þekkingarsetur, menningarstofnanir og samstarfsvettvangur með taugar bæði út í sitt nánasta umhverfi og alþjóðasamfélagið. Um leið og nýr rektor og háskólasamfélagið mótar framtíðarsýn fyrir stærsta háskóla landsins er vonandi að stjórnvöld standi með í verki og endurnýi skuldbindingu sína um að styrkja háskólastigið. Þessi tímamót ættu að verða hvatning til að endurskoða stefnuna og setja raunverulegan kraft í uppbyggingu háskólanna okkar.

Af öllu framansögðu er ljóst að mikið er í húfi að hlúa vel að vísindum og háskólum á Íslandi á komandi árum. Tækifærin til sóknar eru fjölmörg, en þau geta líka runnið okkur hratt úr greipum ef ekki er brugðist við af myndarskap. Við skorum á stjórnvöld að standa við gefin fyrirheit og tryggja háskólunum þann stuðning sem þarf. Nýr rektor og samstarfsfólk í Háskóla Íslands, öðrum háskólum og vísindasamfélaginu öllu verða að fá nauðsynlegt svigrúm og bjargir til að efla íslenskt vísinda- og háskólastarf – í takt við það sem við viljum bera okkur saman við – þannig að Ísland geti blómstrað sem öflugt þekkingarsamfélag í framtíðinni.

Höfundar eru prófessorar við Háskóla Íslands




Skoðun

Sjá meira


×