Erlent

Pútín lætur sér fátt um finnast

Agnar Már Másson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði frekari tollum ef Pútín gengi ekki að samningaborðinu innan 50 daga. Vladimír Pútín gæti varla verið meira sama, að sögn heimildarmanna Reuters.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði frekari tollum ef Pútín gengi ekki að samningaborðinu innan 50 daga. Vladimír Pútín gæti varla verið meira sama, að sögn heimildarmanna Reuters. AP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti er sagður ætla að halda áfram stríðsrekstri Rússa í Úkraínu þar til Vesturlönd taka þátt í friðarviðræðum á hans forsendum.

Reuters hefur þetta eftir heimildarmönnum sínum í Kreml. 

Miðillinn segir að Rússinn láti sér fátt finnast um hótanir Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem hét því í gær að leggja stóraukna tolla á rússneskar vörur ef Rússar kæmu ekki að samningaborðinu og semdu ekki um frið innan 50 daga.

Heldur mun Pútín mögulega leggja fram ríkari kröfur um úkraínskt landsvæði eftir því sem rússneskir herir sækja fram, að sögn þriggja heimildarmanna nálægt Kreml.

Pútín telur að efnahagur Rússlands og her þess séu nógu sterkir til að þola allar viðbótaraðgerðir Vesturlanda, sögðu heimildarmenn Reuters.

Trump hefur að undanförnu lýst óánægju sinni í garð Pútíns sem hefur ekki viljað semja vopnahlé. Bandaríkjamaðurinn tilkynnti að Bandaríkin myndu senda fleiri vopn til Úkraínu, þar á meðal Patriot-loftvarnarkerfi, með milligöngu Nató.

Trump hótaði einnig frekari tollum gegn Rússlandi nema friðarsamkomulag næðist innan 50 daga.

Þrír rússneskir heimildarmenn sem þekkja vel til æðstu ráðamanna í Kreml segja að Pútín muni ekki stöðva stríðið undan þrýstingi frá Vesturlöndum og telji að Rússland geti þolað frekari efnahagslegar refsiaðgerðir, þar á meðal hótanir Bandaríkjanna um tolla sem beinast að kaupendum á rússneskri olíu.

„Pútín telur að enginn hafi í alvöru rætt við hann um smáatriði friðar í Úkraínu, þar á meðal Bandaríkjamenn, þannig að hann mun halda áfram þar til hann fær það sem hann vill,“ sagði einn heimildarmannanna við Reuters, en vildi ekki láta nafns síns getið vegna viðkvæmni málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×