Erlent

50 prósenta tollar á ind­verskar vörur taka gildi í Banda­ríkjunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tollunum hefur verið harðlega mótmælt á Indlandi.
Tollunum hefur verið harðlega mótmælt á Indlandi. Getty/Hindustan Times/Samir Jana

Tollar Donald Trump Bandaríkjaforseta á vörur frá Indlandi hafa tekið gildi en þeir nema 50 prósentum. Upphaflega stóð til að þeir yrðu 25 prósent en þeir voru hækkaðir vegna kaupa Indverja á olíu og vopnum frá Rússlandi.

Bandaríkin og Indland hafa hingað til átt í afar góðum samskiptum og Bandaríkin verið stærsti viðskiptavinur Indlands. Þarlend stjórnvöld hafa nú brugðist við með því að blása til sóknar; heita skattalækkunum til að draga úr áhrifum tollanna og hvatt Indverja til að vera sjálfum sér nógir.

„Við eigum að verða sjálfum okkur nógir, ekki í örvæntingu, heldur með stolti,“ sagði forsætisráðherrann Narendra Modi í ávarpi í vikunni. Hann sagði „efnahagslega sjálfselsku“ hafa gripið um sig á heimsvísu en menn ættu ekki að sitja og vorkenna sjálfum sér heldur rísa og leyfa ekki öðrum að stjórna sér.

Tollar Trump eru taldir munu hafa veruleg áhrif á milljónir Indverja. Sérfræðingar segja boðaða einföldun á skattkerfi landsins hinsvegar munu draga úr högginu.

Hætt var við viðræður milli fulltrúa Bandaríkjanna og Indlands sem áttu að hefjast fyrr í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×