Erlent

Herinn skakkar leikinn í Katmandú

Kjartan Kjartansson skrifar
Stjórnarbyggingar loguðu í Katmandú í gær. Mótmælendur lögðu eld að þeim eftir að lögreglumenn skutu fjölda fólks til bana og særðu tugi á mánudag.
Stjórnarbyggingar loguðu í Katmandú í gær. Mótmælendur lögðu eld að þeim eftir að lögreglumenn skutu fjölda fólks til bana og særðu tugi á mánudag. AP/Prakash Timalsina

Vopnaðir hermenn standa nú vörð á strætum Katmandú, höfuðborg Nepals, eftir mannskæð mótmæli og óeirðir síðustu daga. Borgarbúum hefur verið skipað að halda sig heima hjá sér.

Hörð mótmæli vegna samfélagsmiðlabanns stjórnvalda brutust út í Katmandú. Olíu var hent á eldinn þegar lögreglumenn skutu á mannfjöldann sem mótmælti við þinghúsið á mánudag og drápu nítján manns. 

Afsögn forsætisráðherrans og afnám samfélagsmiðlabannsins gerðu ekkert til þess að lægja öldurnar. Mótmælendur kveiktu í þinghúsinu, fleiri stjórnarbyggingum og heimilum stjórnmálamanna í gær. Þá var ráðist á stjórnmálamenn í borginni og hundruð fanga struku úr fangelsum þegar verðir og lögreglumenn flúðu reiði mótmælenda.

Herinn skarst svo í leikinn í dag en hann hafði haldið að sér höndum síðustu daga. Framfylgdu vopnaðir hermenn útgöngubanni sem gildir þar til á morgun og stöðvuðu fólk og farartæki á ferðinni, að sögn AP-fréttastofunnar.

Segja stjórnleysingja hafa stolið mótmælunum

Mótmælin gegn samfélagsmiðlabanninu hafa verið kennt við Z-kynslóðina svonefndu, fólk sem fæddist undir lok 20. aldar og á fyrsta áratug þessarar. Stjórnvöld bönnuðu samfélagsmiðla eins og Facebook og Instagram þar sem þeir höfðu ekki orðið við kröfu þeirra um að þeir skráðu sig og gengust undir eftirlit í landinu.

Helstu hópar mótmælenda hafa reynt að fjarlægja sig skemmdarverkunum. Tækifærissinnar hafi „stolið“ hreyfingunni. Engin frekari mótmæli hafi verið boðuð, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins.

„Ætlun okkar var aldrei að raska daglegu lífi eða leyfa öðrum að misnota friðsamlegt frumkvæði okkar,“ sagði í yfirlýsingu frá hópunum.

Vegatálmi nepalska hersins í Katmandú. Útgöngubanni var komið á um allt land sem gildir þar til á morgun.AP/Niranjan Shrestha

Herinn hefur tekið undir að einstaklingar og hópar stjórnleysingja hafi laumað sér í raðir mótmælenda og framið spellvirki á opinberum eignum og einkaeignum.

Ekki liggur fyrir hvað tekur við eftir að Khagda Prasad Oli, forsætisráðherra, sagði af sér í gær. Honum var falið að leiða starfsstjórn en ekki er vitað hvar Oli er niður kominn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×