Erlent

Fjöldi fórnar­lamba eftir skot­hríð og í­kveikju í kirkju mor­móna

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Kirkjan stendur í ljósum logum.
Kirkjan stendur í ljósum logum. Aðsend

Árásarmaður hóf skothríð í mormónakirkju í Grand Blanc í Michigan-ríki Bandaríkjanna á þriðja tímanum í dag að íslenskum tíma. Samkvæmt fyrstu fréttum hefur neyðarlínunni borist tilkynningar um fjölda fórnarlamba og að eldur logi inni í kirkjunni.

Hve mörg fórnarlömbin eru og hvert ástand þeirra er er ekki ljóst en samkvæmt staðarmiðlum hefur allt tiltækt viðbragðslið verið ræst út. Skólar, verslanir og bænahús í grennd við kirkjuna hafa hætt starfsemi tímabundið og yfirvöld biðla til íbúa svæðisins að halda sig frá.

Óstaðfest myndefni af vettvangi árásarinnar sýnir mikinn reyk gjósa upp af kirkjunni og fregnir hafa borist af því að þak kirkjunnar sé við það að hrynja.

Lögreglan í Grand Blanc staðfestir að skotárás hafi verið framin en að árásarmaðurinn hafi verið felldur. Ekki er tekið fram hvort það hafi verið verk lögreglunnar eða hans sjálfs. Kirkjan standi í ljósum logum.

Fyrr í dag var greint frá því að æðsti leiðtogi Kirkju Jesús Krists hinna síðari daga heilögu, mormónakirkjunnar, hefði andast í gær. Ekkert bendir enn sem komið er að þetta voðaverk tengist því að nokkru leyti.

Héraðsmiðillinn Fox 2 Detroit er með beina útsendingu af vettvangi.


Tengdar fréttir

Æðsti leiðtogi mormóna látinn

Russel M. Nelson, forseti og æðsti leiðtogi Kirkju Jesús Krists hinna síðari daga heilögu, betur þekktrar sem mormónakirkjan, lést í nótt 101 árs að aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×