Hlutfall virðis á móti hagsveifluleiðréttum hagnaði (CAPE) og hefðbundið hlutfall virðis og hagnaðar (VH-hlutfall) fyrir Úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands, OMXI15, héldust nær óbreytt milli mánaða í september.
CAPE hlutfallið endaði mánuðinn í um 19,7 og er enn undir sögulegu meðaltali, sem nemur 21,0. VH-hlutfallið – reiknað út frá raunhagnaði síðustu tólf mánaða – lækkaði í 14,3, sem er lægsta gildi þess frá júní 2023 og einnig undir langtímameðaltali; um 16,8. Virði félaga í Úrvalsvísitölunni hækkaði um 1,4 prósentustig að raunvirði milli mánaða, en hagnaður undirliggjandi fyrirtækja í vísitölunni óx enn hraðar sem skýrir lækkun beggja hlutfalla.

Fyrrgreind hlutföll gefa til kynna arðsemiskröfu til hlutafjár sem nemur um 5,1% ef miðað er við hagsveifluleiðréttan hagnað, en um 177 punktum hærri kröfu ef miðað er við hagnað síðastliðinna mánaða. Til samanburðar nam ávöxtunarkrafa fimm ára óverðtryggðra ríkisskuldabréfa 6,94% í lok september og verðbólguálag til sama meðaltíma um 3,7% (samanborið við 3,8% þann 31. ágúst). Ávöxtunarkrafa bandarískra ríkisskuldabréfa er nú um 4%.
Nýjustu mælingar Hagstofu Íslands sýna að ársverðbólga jókst í 4,1% í september samanborið við 3,8% í ágúst – gætir þar áhrifa verðhækkana á matvælum og drykkjarvöru, og húsnæðiskostnaðar. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar Bandaríkjanna jókst verðbólga einnig þar í landi, eða í 2,9% ef miðað er við óárstíðarleiðrétt gildi vísitölu neysluverðs. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands mun taka næstu ákvörðun um stig meginvaxta þann 8. október, eftir að hafa haldið vöxtum óbreyttum í 7,5% við síðustu ákvörðun í ágúst síðastliðnum.

Til að gæta samanburðar við virði alþjóðlegra hlutabréfamarkaða má nefna að nýjasta CAPE-hlutfall bandarísku S&P 500 vísitölunnar – samkvæmt gögnum dr. Robert J. Shiller, hagfræðings – stendur í 39,5. Ólíkt íslenska hlutabréfamarkaðnum er hinn bandaríski umtalsvert yfir sögulegu meðaltali.
Höfundur er hagfræðingur.
Nánar um CAPE:
Frá árinu 2016 hefur hagfræðingurinn Brynjar Örn Ólafsson með aðstoð og gögnum frá Kóða og Nasdaq Iceland tekið að sér að reikna og birta mánaðarlega opinberlega tímaraðir fyrir svokallað CAPE (e. Cyclically Adjusted Price to Earnings) fyrir Úrvalsvísitöluna OMXI10 sem hliðstæðu við útreikninga Dr. Robert J. Shiller fyrir S&P 500 vísitöluna.
Hlutfallið sýnir virði Úrvalsvísitölunnar á móti hagsveifluleiðréttum hagnaði þeirra félaga sem mynda vísitöluna. Hefðbundið VH-hlutfall miðast við hagnað síðastliðinna tólf mánaða og í þeim tilfellum sem miklar breytingar verða á hagnaði getur reynst vandasamt að átta sig á réttmæti verðlagningar. Í tilfelli CAPE er notast við verðlagsleiðréttan sögulegan hagnað sem getur gefið vísbendingu um réttmæti verðlagningar á móti hagnaði í eðlilegu árferði.