Fótbolti

Barcelona spilar í Miami: „Ég er ekki hrifinn af þessu“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Frenkie De Jong nefnir nokkrar ástæður fyrir því að hann vilji ekki spila í Miami. 
Frenkie De Jong nefnir nokkrar ástæður fyrir því að hann vilji ekki spila í Miami.  Pedro Salado/Quality Sport Images/Getty Images

Frenkie De Jong, leikmaður Barcelona, er ekki ánægður með að liðið ætli að spila deildarleik í Miami í Bandaríkjunum.

Barcelona mætir Villareal í Miami í desember, eftir að hafa loksins fengið samþykki fyrir því frá UEFA á mánudaginn.

„Ég er ekki hrifinn af þessu“ sagði De Jong á blaðamannafundi hollenska landsliðsins í dag og útskýrði að hagsmunir leikmanna og félaganna sem þeir spila fyrir séu ekki alltaf þeir sömu.

„Ég skil félögin vel að vilja gera þetta, þau græða vel á þessu og koma félaginu á framfæri á alþjóðavísu. En ég myndi ekki gera þetta. Þetta er slæmt fyrir leikmenn, við þurfum að ferðast mjög mikið.

Svo er þetta líka ósanngjarnt hvað keppnina varðar, þetta ætti að vera útivallarleikur hjá okkur en fer í rauninni fram á hlutlausum velli. Ég skil vel að hin félögin séu pirruð yfir því.“

Joan Laporta, forseti Barcelona, ræddi ummæli De Jong á spænsku útvarpstöðinni Cadena SER og sagðist virða skoðanir hans, en það fylgi því mikill fjárhagslegur ávinningur að spila í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

UEFA grætur niðurstöðuna en gefur grænt ljós

Evrópska knattspyrnusambandið UEFA hefur gefið spænsku og ítölsku úrvalsdeildunum leyfi til að halda deildarleiki í Bandaríkjunum og Ástralíu. UEFA hefur beitt sér harðlega gegn því en neyðist til að gefa grænt ljós á leikina sem munu fara fram í Miami og Perth.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×