Fótbolti

Ó­heppin Arna fékk dæmt á sig víti gegn Man. Utd

Sindri Sverrisson skrifar
Manchester United skoraði bara eitt mark í kvöld en það dugði til sigurs gegn Vålerenga.
Manchester United skoraði bara eitt mark í kvöld en það dugði til sigurs gegn Vålerenga. Getty/Martin Rickett

Þrátt fyrir vasklega framgöngu varð norska liðið Vålerenga, með Sædísi Rún Heiðarsdóttur og Örnu Eiríksdóttur innanborðs, að sætta sig við 1-0 tap á útivelli gegn Manchester United í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld.

Þetta var fyrsti leikur kvennaliðs United í aðalkeppni Meistaradeildarinnar og liðið uppskar því sinn fyrsta sigur þar en tæpara gat það vart staðið.

Arna Eiríksdóttir var skiljanlega óánægð með vítaspyrnudóminn enda gat hún lítið gert til að fá boltann ekki upp í höndina.Getty/Molly Darlington

Eina markið kom úr vítaspyrnu frá fyrirliðanum Maya Le Tissier eftir hálftíma leik. Vítið var dæmt á Örnu sem var afar óheppinn að boltinn skyldi skoppa í hönd hennar innan teigs, og óhætt að segja að dómurinn hafi verið mjög strangur.

Vålerenga-liðið varðist afar vel í leiknum en tókst ekki að finna jöfnunarmark og er því stigalaust eftir þennan fyrsta leik sinn af sex í hinni nýju deildarkeppni Meistaradeildarinnar.

Næsti leikur þeirra Örnu og Sædísar í keppninni verður á heimavelli gegn þýska stórliðinu Wolfsburg, sem þrátt fyrir að vera núna án Sveindísar Jane Jónsdóttur hóf sína leiktíð á frábærum 4-0 sigri gegn PSG á heimavelli. Atlético Madrid vann svo 6-0 útisigur gegn St. Pölten í Austurríki.

Fyrr í kvöld var Amanda Andradóttir með Twente sem náði 1-1 jafntefli við Englandsmeistara Chelsea, og Real Madrid vann 6-2 sigur á Roma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×