Erlent

Settu for­setann af vegna glæpaöldu í Perú

Kjartan Kjartansson skrifar
José Jeri, forseti þingsins, var sæmdur axlarlindi forseta eftir að Dinu Boluarte var sparkað úr embætti.
José Jeri, forseti þingsins, var sæmdur axlarlindi forseta eftir að Dinu Boluarte var sparkað úr embætti. AP/John Reyes

Perúska þingið samþykkti að svipta Dinu Boluarte forseta landsins embætti í dag. Ástæðan er meint getuleysi ríkisstjórnar hennar í að taka á glæpaöldu sem gengur yfir landið. Þingforsetinn tekur við embætti forseta tímabundið í hennar stað.

Samþykkt var að rétta yfir Boluarte, sem var fyrsta konan til að gegna embætti forseta Perú, fyrir embættisbrot í gær. Þegar hún lét ekki sjá sig til þess að bera af sér sakir greiddi þingheimur atkvæði um að víkja henni úr embætti þegar í stað, að sögn AP-fréttastofunnar. Þingmenn nær allra flokka greiddu atkvæði með því að sparka Boluarte úr forsetastóli.

Skömmu síðar var José Jeri, forseti þingsins, kjörinn starfandi forseti. Hann á að klára kjörtímabil Boluarte sem rennur út í júlí á næsta ári. Forsetakosningar fara fram í apríl.

Dina Boluarte á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í síðasta mánuði.AP/Richard Drew

Sjötti forsetinn á innan við áratug

Pólitískur óstöðugleiki hefur einkennt Perú undanfarin ár. Boluarte var sjötti forsetinn á innan við áratug en kjörtímabil forseta er fimm ár í Suður-Ameríkulandinu. Þingmenn höfðu átta sinnum áður reynt að úthýsa Boluarte.

Aðeins þrjú ár eru frá því að Boluarte tók við forsetaembættinu af Pedro Castillo. Hann var fjarlægður úr embætti eftir tveggja ára valdasetu þegar hann reyndi að leysa þingið upp til að koma í veg fyrir að það greiddi atkvæði um brottvikningu hans.

Stjórnartíð Boluarte var plöguð af alls kyns hneykslismálum en glæpir hafa einnig verið stórt vandamál. Rúmlega sex þúsund manns höfðu verið drepnir frá janúar fram í miðjan ágúst en morðtíðnin hefur ekki verið hærri í landinu í átta ár. Þá eru fjárkúganir daglegt brauð.

 Boluarte kenndi fyrri ríkisstjórnum um vandann vegna þess að þær hefðu hleypt erlendum glæpamönnum óhindrað inn í landið.


Tengdar fréttir

Forseti Perú kærður fyrir mútuþægni

Ríkissaksóknari í Perú lagði fram kæru til þingsins á hendur Dinu Boluarte, forseta landsins, fyrir mútuþægni í gær. Ásakanirnar tengjast lúxusúrum og skartgripum sem Boluarte ber.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×