Fótbolti

Blikakonur í 16-liða úr­slit í Evrópu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jafnteflið þýðir að Blikakonur eru öruggar í 16-liða úrslit keppninnar. Dregið verður á föstudag.
Jafnteflið þýðir að Blikakonur eru öruggar í 16-liða úrslit keppninnar. Dregið verður á föstudag.

Breiðablik gerði 1-1 jafntefli við Spartak Subotica í síðari leik liðanna í Evrópubikar kvenna í fótbolta ytra. Blikakonur vinna einvígið samanlagt 5-1 og er komið í 16-liða úrslit keppninnar.

Breiðablik mætti með 4-0 forystu til Serbíu og var leikur dagsins lítið annað en formsatriði. Leikurinn var heilt yfir tíðindalítill og Blikakonur sáttar við stöðu mála eftir leikinn hér heima.

Breiðablik var meira með boltann í fyrri hálfleik en gekk illa á síðasta þriðjungi á meðan heimakonur reyndu að ógna með skyndisóknum. Staðan í hálfleik var markalaus.

Fyrsta markið kom sem þruma úr heiðskíru lofti þegar hin suður-kóreska Soyi Kim í liði heimakvenna fékk tíma með boltann og lét vaða af um 30 metra færi. Boltinn söng í netinu og staðan 1-0.

Breiðabliki tókst að jafna eftir hornspyrnu Öglu Maríu Albertsdóttur frá vinstri. Eftir hana átti Heiða Ragney Viðarsdóttir skot að marki og myndaðist mikill darraðadans. Boltinn skaust á milli varnarmanna heimakvenna og fór þaðan í netið.

Sjálfsmarkið þýddi að staðan var orðin 1-1 á 79. mínútu. Heimakonur sóttu hart að Blikum undir lok leiks sem kallaði meðal annars á björgun á línu en 1-1 lauk leiknum.

Einvígið fór því samanlagt 5-1 og Breiðablik komið áfram í 16-liða úrslit keppninnar.

Dregið verður í 16-liða úrslitin á föstudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×