Erlent

Njósnað um konuna sem á­sakaði Khan um kyn­ferðis­brot

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Konan hefur sakað Khan um að hafa brotið gegn sér á ferðalögum, á skrifstofu Khan og á heimili hans.
Konan hefur sakað Khan um að hafa brotið gegn sér á ferðalögum, á skrifstofu Khan og á heimili hans. Getty/Michael M. Santiago

Stjórnvöld í Katar eru sögð hafa ráðið tvö bresk fyrirtæki til að afla upplýsinga um konu sem hefur sakað Karim Khan, yfirsaksóknara Alþjóðlega sakamáladómstólsins (ICC), um kynferðisbrot.

Aðgerðin gegn konunni, þar sem gögnum var safnað um bæði hana og fjölskyldu hennar, er sögð hafa verið leidd af rannsóknarfyrirtækinu Highgate og hafa miðað að því að grafa undan trúverðugleika konunnar og staðhæfingum hennar um meint brot Khan.

Frá þessu greinir Guardian.

Khan hefur neitað sök og stuðningsmenn hans hafa haldið því fram að ásakanir konunnar, sem er lögmaður hjá ICC, séu þáttur í hefndaraðgerðum gegn honum, vegna ákvörðunar hans um að gefa út handtökuskipun á hendur Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael.

Samkvæmt Guardian fundust engin tengsl milli konunnar og Ísrael.

Miðillinn hefur eftir heimildarmönnum að Highgate hafi fundað með fulltrúum Khan. Lögmenn Khan hafa ekki neitað ásökununum en segjast ekki hafa fengið neinar upplýsingar um aðgerðir Highgate.

Highgate er sagt hafa fengið annað fyrirtæki, Elicius Intelligence, til að safna upplýsingum um konuna, eiginmann hennar, barn og tengdaforeldra. Þá hafi það einnig verið fengið til að afla upplýsinga um aðra starfsmenn ICC.

Í gögnum sem safnað var má meðal annars finna upplýsingar úr vegabréfi konunnar, upplýsingar um ferðalög hennar og leyniorð fyrir ýmsa aðganga á netinu.

Konan segist fyrir sitt leyti vera orðin þreytt á að bíða eftir niðurstöðu rannsóknar kynferðisbrotamálsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×