Fótbolti

Estevao hangir ekki í símanum

Sindri Sverrisson skrifar
Það getur verið gaman að kíkja upp úr símanum. Estevao og félagar í Chelsea skemmtu sér alla vega konunglega í sigrinum á Barcelona í gærkvöld.
Það getur verið gaman að kíkja upp úr símanum. Estevao og félagar í Chelsea skemmtu sér alla vega konunglega í sigrinum á Barcelona í gærkvöld. Getty/Harry Langer

Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Chelsea, sagði fjölmiðla ganga of langt þegar þeir væru strax farnir að líkja hinum 18 ára Estevao við Lionel Messi eða Cristiano Ronaldo. Hann væri enn ungur en færi eftir gömlum gildum og væri til að mynda ekki sífellt hangandi í símanum.

Estevao hefur verið að springa út í haust og sýnt af hverju Brasilíumenn binda svona miklar vonir við þennan bráðefnilega leikmann.

Í gærkvöld skoraði Estevao frábært mark gegn Barcelona, eftir að hafa stungið sér með boltann framhjá tveimur varnarmönnum, og þar með hefur hann skorað í fyrstu þremur byrjunarliðsleikjum sínum í Meistaradeildinni. Kylian Mbappé og Erling Haaland eru þeir einu sem einnig hafa afrekað það sem táningar.

„Estevao þarf að fá að slaka á. Hann þarf að njóta og hann þarf æfingar. Hann þarf að spila fótbolta. Hann og Lamine [Yamal] eru svo ungir, 18 ára, svo að ef að menn fara að ræða um þá í sambandi við Messi og Ronaldo þá setur það of mikla pressu á svona unga stráka. Þeir verða að njóta og mæta glaðir á æfingasvæðið,“ sagði Maresca.

Stjórinn vill greinilega að Estevao fái að njóta þess sem mest að vera venjulegur náungi, þó að hann sé allt annað en venjulegur fótboltamaður.

„Estevao er eins og gamaldags náungi. Hann hangir ekki alltaf í símanum og eyðir ekki miklum tíma á samfélagsmiðlum.

Hann leggur hart að sér og er bara venjulegur strákur. Ég elska það. Fjölskyldan er líka alltaf í kringum hann. Hann er einstakur leikmaður en venjulegur gæi,“ sagði Maresca eftir sigurinn í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×