Fótbolti

Mbappé með þrennu í fyrri hálf­leik og fjögur alls

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe fagnar einu af fjórum mörkum sínum með liðsfélaga sínum Vinicius Junior en Vinicius átti tvær stoðsendingar á Mbappe í kvöld.
Kylian Mbappe fagnar einu af fjórum mörkum sínum með liðsfélaga sínum Vinicius Junior en Vinicius átti tvær stoðsendingar á Mbappe í kvöld. Getty/Alex Pantling

Real Madrid slapp með þrjú stig frá Grikklandi í Meistaradeildinni í fótbolta í kvöld og geta bara þakkað einum manni fyrir það. Tottenham skoraði þrjú mörk í París en tapaði samt á móti Evrópumeisturunum. Atletico Madrid vann dramatískan sigur á Inter.

Kylian Mbappé skoraði öll fjögur mörk Real Madrid í 4-3 útisigri á Olympiacos.

Chiquinho skoraði fyrsta markið fyrir Olympiacos á 8. mínútu en Mbappé svaraði með þrennu á sjö mínútum, skoraði á 22., 24. og 29. mínútu. Mehdi Taremi minnkaði muninn í 3-2 á 52. mínútu en Mbappé gerði sitt fjórða mark á 60. mínútu. Vinicius Junior lagði upp tvö marka hans.

Ayoub El Kaabi skoraði þriðja mark Olympiacos á 81. mínútu en Real Madrid landaði sínum fjórða sigri í fimm leikjum í Meistaradeildinni í vetur. Real Madrid situr núna í fimmta sætinu.

Vitinha skoraði þrennu fyrir Paris Saint Germain í 5-3 sigri á Tottenham í París.

Richarlison skoraði fyrsta mark leiksins á 35. mínútu og Randal Kolo Muani kom Tottenham aftur yfir á 50. mínútu.

Vitinha jafnaði í 1-1 á 45. mínútu og svo í 2-2 á 53. mínútu. Fabián Ruiz og Willian Pacho komu PSG í 4-2 áður en Kolo Muani minnkaði muninn með sínu öðru marki í leiknum.

Vitinha átti hins vegar lokaorðið þegar hann skoraði fimmta markið úr vítaspyrnu á 76. mínútu. PSG hefur unnið fjóra af fimm leikjum og er í öðru sætinu.

José Giménez skoraði sigurmark Atletico Madrid í uppbótatíma í 2-1 sigri á Internazionale. Giménez skallaði inn sendingu Antoine Griezmann. Julián Álvarez kom Atletico í 1-0 snemma leiks en Piotr Zielinski jafnaði metin.

Atalanta vann 3-0 útisigur á Frankfurt og Sporting vann 3-0 heimasigur á Club Brugge. Atalanta er í tíunda sætinu en Sporting í áttunda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×